Fótbolti

Öruggt hjá Börsungum sem gætu þó verið dæmdir úr keppni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Börsunga skiluðu sínu í kvöld
Leikmenn Börsunga skiluðu sínu í kvöld vísir/getty
Barcelona er komið áfram í átta liða úrslit spænsku bikarkeppninnar eftir öruggan sigur á Levante á heimavelli sínum í kvöld. Börsungar gætu þó verið dæmdir úr keppni af spænska knattspyrnusambandinu.

Levante vann nokkuð óvæntan 2-1 sigur í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitunum og fór því með eins marks forskot inn í leikinn á Nývangi í kvöld.

Tvö mörk frá Ousmane Dembele á tveggja mínútna kafla eftir um hálftíma leik gerðu þó út um þá forystu. Lionel Messi kláraði svo leikinn fyrir Barcelona á 54. mínútu. Leiknum lauk með 3-0 sigri Barcelona sem fer 4-2 samanlagt áfram.

Gríðarlega öruggur sigur Barcelona sem heldur áfram vegferð sinni að fimmta bikarmeistaratitlinum í röð.

Hins vegar gæti spænska knattspyrnusambandið skemmt bikarpartýið. Levante ætlar nefnilega að leggja fram kvörtun yfir því að Barcelona hafi notað ólöglegan leikmann í fyrri leik liðanna. Fari svo að knattspyrnusambandið dæmi Levante í vil verður Barcelona dæmt úr keppni.

Leikmaðurinn sem um ræðir heitir Juan Brandariz samkvæmt spænska blaðinu El Mundo, en Brandariz spilar með varaliði Barcelona. Hann fékk gult spjald í leik með varaliðinu gegn Castellon í C-deildinni um síðustu helgi og var þar með kominn í eins leiks bann vegna uppsafnaðra spjalda. Það bann á líka að gilda í bikarnum og því hefði hann ekki átt að mega spila leikinn við Levante.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×