Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - ÍR 68-99| Breiðhyltingar völtuðu yfir Blika

Gabríel Sighvatsson í Smáranum skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Vísir/Bára
Lánlaust lið Breiðablik tók á móti ÍR í Smáranum í kvöld. Leikurinn var hluti af 14. umferð Domino's deildar karla.

Það er óhætt að segja að Breiðablik sé að eiga slakt tímabil og slakt gengi liðsins hélt áfram í kvöld. Þeir sáu aldrei til sólar gegn spræku liði ÍR-inga og töpuðu á endanum með stórum mun.

Í 1. leikhluta munaði ekki miklu á liðunum og það leit út fyrir að við myndum fá leik í kvöld en annað kom á daginn. ÍR komu sterkir inn í 2. leikhluta og staðan í hálfleik 30-58 og leik nánast lokið nú þegar.

Það var ekkert í seinni hálfleik sem hjálpaði Blikum í leiknum. Í 3. leikhluta skoruðu þeir fá stig og héldu áfram að fá á sig fullt en á síðustu 10 mínútunum náðu þeir að laga stöðuna eilítið.

Þá var ÍR farið að slaka á og rótera mönnum. Ákaflega skynsamlegt hjá Borche Ilievski, þjálfara ÍR. Hans lið á tvo leiki í næstu viku og þeir fá einungis tvo daga í hvíld fyrir bikarleik gegn Skallagrími.

Af hverju vann ÍR?

ÍR var yfir í öllum hlutum leiksins sem hægt var að vera, ef villur eru frá talnar. Þeir keyrðu yfir Breiðablik frá upphafi til enda og um tíma leit út fyrir að þeir myndu vinna 40+ stiga sigur.

ÍR-ingar kláruðu þetta verkefni af mikilli fagmennsku og voru afskaplega góðir bæði í sókn og vörn og fylgdu leikskipulaginu fullkomlega eftir.

Hvað gekk illa?

Allt. Það er ekki margt meira hægt að segja um frammistöðu Blika. Þeir hafa tapað næstum öllum leikjum sínum og oft verið óheppnir en í kvöld var engri óheppni um að kenna. Breiðablik var bara lélegt og svona frammistaða er óafsakanleg.

Á 20 mínútna kafla frá byrjun 2. leikhluta til loka 3. leikhluta voru þeir mjög slakir og skoruðu ekki nema 17 stig á þessum tíma leiks. Lokatölur leiksins endurspegla spilamennskuna ansi vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er ekki hægt að segja að einhver hafi staðið upp úr hjá heimamönnum. Það var afskaplega lítið að frétta en það er hægt að nefna að stigahæstir voru Kofi Josephs og Jameel McKay með 14 og 15 stig hvor.

Breiðhyltingar áttu hinsvegar tvo stigaháa menn í kvöld. Gerald Robinson var mjög góður og setti niður 3ja stiga skot að vild í leiknum. Hann lauk leik í kvöld með 36 stig og 17 fráköst, þrátt fyrir að hafa nánast ekkert tekið þátt í 4. leikhluta. Kevin Capers var með 27 stig og 8 stoðsendingar en hann og Gerald skoruðu meira en helming stiga ÍR.

Hvað gerist næst?

Ef Breiðablik ætlar að sækja einhverja fleiri sigra á þessu tímabili þá gefst ekki betra tækifæri en í næstu tveimur leikjum þar sem þeir spila við Hauka og Skallagrím, bæði lið á svipuðu róli og þeir.

Skallgrímur mun dvelja í Breiðholti næstu daga en ÍR tekur á móti þeim í spennandi tvíhöfða, fyrst í 8-liða úrslitum bikarsins á mánudaginn og síðan í deildinni nokkrum dögum síðar.

Sigurður: Þeir spiluðu vörn byggða á því að við myndum klikka

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður ÍR, var ánægður með dagsverkið.

„Þetta var frekar þægilegur sigur, þeir héldu í okkur í fyrsta leikhluta en síðan skilja leiðir snemma í öðrum og héldum því allan leikinn,“ sagði Sigurður í leikslok.

ÍR-ingar spiluðu vel og kláruðu leikinn nánast í hálfleik.

„Þeir spiluðu einhverja svæðisvörn hjá okkur sem mér fannst vera byggð á einhverri von um að við myndum klikka, sem gerðist ekki. Þá slitum við þá frá okkur og spiluðum góða vörn á móti. Það virkar.“

„Borche undirbýr okkur mjög vel fyrir alla leiki og í dag fórum við eftir því sem hann sagði, það hefur komið fyrir í vetur að við höfum ekki gert það þannig að það gekk upp.“

Í lokin voru ÍR-ingar bara farnir að slaka á og farnir að skipta mönnum af velli.

„Mér fannst Breiðablik ekkert vera að ógna okkur þannig að þeir ætluðu að reyna að koma til baka. Borche las það bara og leyfði lykilmönnum að hvíla. Það er bara fínt, við eigum leik á mánudaginn.“

„Við töpuðum fyrir þeim í seinasta leik í deildinni þannig að við höfum harma að hefna og við ætlum að gera það,“ sagði Sigurður.

Pétur: Hef ekki séð þá svona slaka á æfingu

Pétri Ingvarssyni, þjálfara Breiðabliks, fannst frammistaðan hjá sínu liði í kvöld varla boðleg.

„Þetta er kannski eitthvað sem við lögðum ekki upp með í byrjun vetrar að bjóða upp á svona frammistöðu, ég hef ekki séð þá svona slaka á æfingu einu sinni. Leiðin hlýtur þá að liggja upp á við,“ sagði Pétur. 

„Ég held það, við komum bjartsýnir í þennan leik en það breyttist fljótt. Það jákvæða við þennan leik er að við héldum þeim undir 100 stigum, það hefur ekki gerst í langan tíma þannig að kannski er vörnin að smella en sóknin að klikka.“ sagði Pétur sem reyndi að halda þessu á léttu nótunum.

Hann segist ekki geta valið eitt atriði í spilamennskunni sem var slæmt heldur hafi alltof margt verið slæmt hjá þeim.

„Ég veit ekki hvað maður á að velja úr þessu, það þarf ekkert að velja eitthvað eitt, þetta var bara ekki boðlegt fyrir einn né neinn. Ég held að bæði áhorfendur og leikmenn og við sem stöndum að þessu, við vitum að þetta er ekki það sem við ætluðum að standa fyrir í byrjun móts. Það er eins og ég segi, eina góða kannski er að við héldum þeim undir 100.“

Næstu tveir leikir Breiðabliks eru gegn liðum sem eru nálægt þeim í deildinni og þar er ágætur möguleiki á að ná í einhver stig.

„Það er alltaf séns, þessi hópur af drengjum er búinn að vera saman í kannski sjö æfingar og tvo leiki þannig að við erum ekki komnir langt á leið með það sem við erum að gera enda sást það klárlega í kvöld. Við fáum fleiri æfingar fyrir næsta leik og vonandi eigum við eftir að standa okkur betur en þetta, ég held að það er ekkert lið í deildinni sem er svo lélegt að við getum unnið þá með svona frammistöðu, því miður,“ sagði Pétur að lokum.

Borche: Við tókum þennan leik mjög alvarlega

„Frammistaðan var frábær, ég var mjög ánægður. Mér fannst við klára verkefnið í 3. Leikhluta, þá reyndi ég að hvíla leikmenn, við eigum bikarleik á mánudag gegn Skallagrími. Við gáfum öllum tækifæri.“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir stórsigur á Breiðablik í kvöld.

„Miðað við hvað hefur gerst undanfarið í leikjum varaði ég leikmenn mína við, þeir þurftu að halda áfram og byrja 3. leikhluta eins og staðan væri 0-0. Þeir fylgdu leiðbeiningum mínum og gáfu allt sitt í þetta. Við bjuggum okkur undir svæðisvörn alla vikuna og það var klárlega að virka.“ 

Borche bjóst ekki við þessum stórsigri eins og raunin varð.

„Breiðablik er gott lið, við tókum þennan leik mjög alvarlega, eins og úrslitaleik á HM. Þetta var leikur sem við þurftum að vinna og ég virði hvernig leikmennirnir nálguðust leikinn og héldu áfram alveg til enda, ég hafði engar áhyggjur en í hálfleik töluðum við um úrslit gærdagsins, þar sem ég varaði leikmenn mína við og þeir svöruðu því vel.“

ÍR á leiki við Skallagrím framundan, bæði í deild og bikar.

„Þetta verður erfiður leikur, ég get sagt af reynslu minni við Breiðablik, þeir spila svipaðan bolta. Við höfum lítinn tíma til að undirbúa okkur en við vitum styrkleika og veikleika þeirra. Þetta er útsláttarleikur og ég vona að við getum nýtt okkur úrslitin í kvöld og heimavöllinn gegn þeim en það er erfitt að spila gegn þeim en við reynum að koma með gott leikskipulag.“

Þrátt fyrir stutta hvíld fyrir næsta leik hjálpaði það að Borche gat leyft sér að hvíla leikmenn í lok leiks þegar sigurinn var í höfn.

„Eins og ég sagði, ég hvíldi Matta því hann er ekki búinn að jafna sig 100 prósent, Hákon var ekki með og það var ákveðið vandamál fyrir mig en ég gaf Skúla mínútur í kvöld, hann var frábær varnarlega. Svo fengu ungu mennirnir Hafliði og Óli mínútur og þeir gátu gefið gömlu mönnunum góða hvíld og almennt er ég mjög ánægður með hvernig við spiluðum í kvöld.“ sagði Borche að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira