Viðskipti innlent

Eimskip lækkar laun forstjóra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um 1.850 manns starfa hjá Eimskipafélagi Íslands.
Um 1.850 manns starfa hjá Eimskipafélagi Íslands. Fbl/anton brink
Vilhelm Már Þorsteinsson, nýr forstjóri Eimskips, verður með lægri laun en forveri hans í starfi. Launalækkun hans er hluti af aðgerðum Eimskips sem miða að „aukinni hagræðingu og skilvirkni í rekstri,“ eins og það er orðað í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Meðal annarra aðgerða sem gripið verður til er uppstokkun í skipuriti félagsins. Til að mynda mun Hilmar Pétur Valgarðsson fjármálstjóri Eimskips taka við nýju sviði, Rekstrarsviði, sem sameinar helstu rekstrareiningar félagsins tengdum skiparekstri og siglingakerfi. Þar að auki mun Egill Örn Petersen forstöðumaður á fjárhagssviði taka við starfi fjármálastjóra og leiða fjármálasvið félagsins. Ný deild, Ferla- og upplýsingatæknideild, sem áður voru tvær aðskildar deildir í skipuriti, mun heyra beint undir forstjóra.

Sjá einnig: Vilhelm Már nýr forstjóri Eimskips

Í tilkynningunni segir jafnframt að samhliða þessum skipulagsbreytingum hafi Eimskip í hyggju að „hagræða“ í siglingakerfi félagsins. Strandsiglingar verða nú aðra hverja viku í stað vikulega frá Íslandi, eins og áður hefur verið tilkynnt, auk þess sem fækkað hefur verið um eitt skip í siglingakerfi félagsins í Noregi.

Eimskip hefur að sama skapi í hyggju að auka þjónustu við ferskfisk- og uppsjávarviðskiptavini í Færeyjum með vikulegum siglingum frysti- og gámaskipsins Svartfoss milli Færeyja og Bretlands auk þess sem aðra hverja viku verða siglingar milli Færeyja og Hollands.

„Þessar aðgerðir fela í sér breytingar á 10 stöðugildum hjá félaginu þar sem þau ýmist verða lögð niður eða taka breytingum. Flest þessara stöðugilda varða millistjórnendur hjá félaginu. Laun nýs forstjóra taka mið af þeirri áherslu stjórnar að lækka þurfi kostnað félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Hið nýja skipurit EimskipsEimskip
Nánar um nýtt stjórnskipulag félagsins:

Rekstrarsvið er nýtt svið sem Hilmar Pétur Valgarðsson, núverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, mun stýra. Ábyrgð sviðsins nær yfir rekstrareiningar sem hafa til þessa verið undir fjármála- og rekstrarsviði annars vegar og flutningasviði hins vegar. Með þessari breytingu er allur rekstrarkostnaður skipa og flutningakerfa sameinaður á einu sviði með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri.

Undir sviðið munu heyra skiparekstur, siglingakerfi, gámastýring, innkaupa- og kostnaðareftirlit, tjóna og tryggingarmál ásamt öryggis- og forvarnarmálum.

Fjármálasvið sem áður hét fjármála- og rekstrarsvið ber ábyrgð á fjármálum Eimskips samstæðunnar á alþjóðavísu. Egill Örn Petersen sem starfað hefur sem forstöðumaður fjárhagsdeildar tekur við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs.

Egill hóf störf hjá Eimskip árið 2003, fyrst sem sérfræðingur í hagdeild og síðar sem deildarstjóri sömu deildar. Hann tók við starfi forstöðumanns fjárhagsdeildar árið 2009. Egill lauk B.Sc. gráðu í viðskiptafræði árið 2002 frá Háskóla Íslands.

Sölu- og markaðssvið sem áður hét flutningasvið, sem Matthías Matthíasson stýrir, mun sem áður leggja áherslu á sölu og framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina í áætlunarkerfi félagsins. Að auki mun markaðsdeild Eimskips færast undir sviðið.

Innanlandssvið sem Guðmundur Nikulásson stýrir, mun sem áður bera ábyrgð á rekstri landflutninga, vöruhúsa og hafnarþjónustu félagsins á Íslandi.

Alþjóðasvið sem Bragi Þór Marinósson stýrir, mun sem áður bera ábyrgð á rekstri félagsins erlendis að undanskildum skiparekstri.

Mannauðssvið sem áður hét mannauðs- og markaðssvið, sem Elín Hjálmsdóttir stýrir, ber ábyrgð á stefnum, framkvæmd og samræmingu í mannauðsmálum og samfélagslegri ábyrgð hjá Eimskip á alþjóðavísu. Elín Hjálmsdóttir framkvæmdastjóri sviðsins mun jafnframt taka að sér hlutverk upplýsingafulltrúa félagsins.

Ferla- og upplýsingatæknideild  sem áður voru tvær aðskildar deildir í skipuriti verður stýrt af Hilmari Karlssyni forstöðumanni en deildin heyrir nú beint undir forstjóra.

 


Tengdar fréttir

Vilhelm Már nýr forstjóri Eimskips

Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri Eimskips. Vilhelm sem undanfarin ár hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækja og fjárfestasviðs Íslandsbanka hefur störf 24. Janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×