Körfubolti

Borche: Tókum þennan leik eins alvarlega og úrslitaleik á HM

Gabríel Sighvatsson í Smáranum skrifar
Borche Ilievski stýrir liði ÍR af mikilli kænsku
Borche Ilievski stýrir liði ÍR af mikilli kænsku vísir/daníel
ÍR vann 68-99 stórsigur á Breiðabliki í Domino's deild karla í kvöld. Sigurinn hefði getað verið mun stærri en ÍR-ingar slökuðu á í loka fjórðungnum eftir að hafa kafkeyrt Blika í þeim þriðja.

„Frammistaðan var frábær, ég var mjög ánægður. Mér fannst við klára verkefnið í 3. leikhluta, þá reyndi ég að hvíla leikmenn, við eigum bikarleik á mánudag gegn Skallagrími. Við gáfum öllum tækifæri.“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir stórsigurinn í kvöld.

„Miðað við hvað hefur gerst undanfarið í leikjum varaði ég leikmenn mína við, þeir þurftu að halda áfram og byrja 3. leikhluta eins og staðan væri 0-0. Þeir fylgdu leiðbeiningum mínum og gáfu allt sitt í þetta. Við bjuggum okkur undir svæðisvörn alla vikuna og það var klárlega að virka.“ 

Borche bjóst ekki við þessum stórsigri eins og raunin varð.

„Breiðablik er gott lið, við tókum þennan leik mjög alvarlega, eins og úrslitaleik á HM. Þetta var leikur sem við þurftum að vinna og ég virði hvernig leikmennirnir nálguðust leikinn og héldu áfram alveg til enda, ég hafði engar áhyggjur en í hálfleik töluðum við um úrslit gærdagsins, þar sem ég varaði leikmenn mína við og þeir svöruðu því vel.“

ÍR á leiki við Skallagrím framundan, bæði í deild og bikar.

„Þetta verður erfiður leikur, ég get sagt af reynslu minni við Breiðablik, þeir spila svipaðan bolta. Við höfum lítinn tíma til að undirbúa okkur en við vitum styrkleika og veikleika þeirra. Þetta er útsláttarleikur og ég vona að við getum nýtt okkur úrslitin í kvöld og heimavöllinn gegn þeim en það er erfitt að spila gegn þeim en við reynum að koma með gott leikskipulag.“

Þrátt fyrir stutta hvíld fyrir næsta leik hjálpaði það að Borche gat leyft sér að hvíla leikmenn í lok leiks þegar sigurinn var í höfn.

„Eins og ég sagði, ég hvíldi Matta því hann er ekki búinn að jafna sig 100 prósent, Hákon var ekki með og það var ákveðið vandamál fyrir mig en ég gaf Skúla mínútur í kvöld, hann var frábær varnarlega. Svo fengu ungu mennirnir Hafliði og Óli mínútur og þeir gátu gefið gömlu mönnunum góða hvíld og almennt er ég mjög ánægður með hvernig við spiluðum í kvöld.“ sagði Borche að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×