Fótbolti

PSG rótburstaði botnliðið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mbappe skoraði þrennu og lagði upp fyrir félaga sína
Mbappe skoraði þrennu og lagði upp fyrir félaga sína vísir/getty
Kylian Mbappe og Edinson Cavani skoruðu báðir þrennu í risa sigri Paris Saint-Germail á Guingamp í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

PSG hefur enn ekki tapað leik í deildinni og er með 13 stiga forskot á toppnum ásamt því að eiga einn leik til góða á Lille. Það virðist því fátt geta stöðvað Parísarmenn í að hampa Frakklandsmeistaratitlinum, botnlið Guingamp var í það minnsta engin fyrirstaða.

Neymar opnaði flóðgáttirnar á 11. mínútu eftir sendingu frá Dani Alves. Neymar lagði svo upp mark fyrir Mbappe á 37. mínútu og Mbappe bætti öðru marki við áður en flautað var til hálfleiks, í þetta skipti eftir undirbúning Cavani.

Cavani vildi hins vegar komast sjálfur á blað og hann setti tvö mörk á sjö mínútna kafla eftir um klukkutíma leik.

Mbappe þakkaði Neymar fyrir stoðsendinguna í fyrri hálfleiknum með því að leggja upp fyrir Brasilíumanninn á 68. mínútu og Cavani fullkomnaði þrennuna á 75. mínútu.

Stuttu síðar lagði Cavani upp fyrir Mbappe sem var þá einnig kominn með þrennu og Cavani átti aftur stoðsendinguna í síðasta marki dagsins, það kom frá Thomas Meunier.

Lokaniðurstaðan 9-0 sigur PSG, Guingamp átti ekki eitt einasta skot á markrammann í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×