Handbolti

Frakkar unnu Spánverja │Auðvelt hjá Svíum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mem var frábær í leiknum
Mem var frábær í leiknum vísir/getty
Frakkar unnu þriggja marka sigur 33-30 á Spánverjum í fyrsta leik milliriðils okkar Íslendinga á HM í Þýskalandi og Danmörku.

Franska liðið var tveimur mörkum yfir, 17-15, þegar flautað var til hálfleiks og í seinni hálfleik létu þeir forystu sína aldrei af hendi. 

Þeir komust mest sex mörkum yfir þegar korter var eftir af leiknum en þá tóku Spánverjar áhlaup og minnkuðu muninn. Þeir komust þó ekki nær en að minnka muninn í tvö mörk og Frakkar unnu að lokum 33-30.

Framtíðarmenn Frakkanna spiluðu stórt hlutverk í síðari hálfleik, ungu mennirnir Dika Mem og Melvyn Richardson skoruðu samtals 9 af 15 mörkum Frakka í seinni hálfleik. Mem var markahæstur Frakka í leiknum ásamt Ludovic Fabregas með sex mörk.

Hjá Spánverjum var Ferran Sole markahæstur með 11 mörk.

Frakkar eru þá komnir með fimm stig og fara á toppinn á riðlinum, í það minnsta tímabundið. Spánverjar eru með tvö stig.



Í hinum milliriðlinum unnu lærisveinar Kristjáns Andréssonar í sænska landsliðinu þægilegan 23-35 sigur á Túnis.

Svíar voru með fimm marka forystu í hálfleik 19-14 og sænska vörnin hélt Túnis í aðeins níu mörkum í seinni hálfleik. Mjög öruggur sænskur sigur og Svíar taka toppsætið af Dönum í milliriðli 2, í það minnsta tímabundið.

Andreas Nilsson og Niclas Ekberg voru markahæstir Svía með sjö mörk og báðir þurftu þeir aðeins sjö skot til þess að skora mörkin sín.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×