Erlent

Segist reiðubúinn til fundar við Trump

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá nýársávarpi Kim Jon Un, leiðtoga Norður-Kóreu.
Frá nýársávarpi Kim Jon Un, leiðtoga Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Leiðtogi alræðisríkisins Norður-Kóreu, Kim Jong Un, segist reiðubúinn til þess að hitta Donald Trump, Bandaríkjaforseta, á ný hvenær sem er til þess að ganga úr skugga um að þeir nái sameiginlegu markmiði sínu, sem er afkjarnorkuvæðing Kóreuskagans, en varar við því að hann sé reiðubúinn til þess að „kanna aðrar leiðir“ verði refsiaðgerðum Bandaríkjanna gagnvart landinu fram haldið. Þetta kom fram í nýársávarpi leiðtogans til þjóðar sinnar en líkt og kunnugt er hitti Kim Bandaríkjaforseta í júní á síðasta ári, 2018.

„Ég er alltaf reiðubúinn til þess að setjast niður með Bandaríkjaforseta hvenær sem er í framtíðinni og ég mun vinna hart að því að ná niðurstöðu sem verður fagnað af alþjóðasamfélaginu án þess að mistakast,“ sagði einræðisherrann meðal annars.

Hann fullyrti að yfirvöld í Pyong­yang hefðu „gripið til nokkurra yfirgripsmikilla aðgerða“ í þágu afkjarnorkuvæðingar Kóreuskagans og að ef Washington myndi svara með aðgerðum sem gæfu til kynna að traust ríkti á milli landanna „myndu tvíhliða samskipti þróast á undraverðum tíma“. Norður-Kórea sé hins vegar eins og áður segir, tilbúin til þess að „kanna aðrar leiðir“ fari svo að Bandaríkin aflétti ekki refsiaðgerðum að fullu gagnvart landinu.

Í umfjöllun Reuters um ummæli einræðisherrans kemur fram að ekki sé vitað nákvæmlega hvað hann meini með þessu orðfæri en að það muni líklegast ýta undir efasemdir meðal bandarísku ríkisstjórnarinnar um að yfirvöld í Norður-Kóreu vilji raunverulega láta af hendi kjarnorkuvopn sín.

Bandarísk yfirvöld hafa enn ekki tjáð sig um nýársávarp einræðisherrans en yfirvöld í Suður-Kóreu hafa fagnað ávarpinu og segja það sýna staðfestu yfirvalda þar til þess að bæta samskiptin við Seoul og Washington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×