Innlent

Vill selja ríkiseignir fremur en að þyngja álögur á landsmenn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason, segir ríkið geta kostað vegagerð með því að selja eignir eins og bankana og kveðst andvígur því að álögur verði þyngdar á landsmenn með nýrri tegund skattheimtu, en kveðst þó ekki á móti veggjöldum sem slíkum. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Samgönguáætlun með vegtollum verður fyrsta stóra málið sem Alþingi tekst á við þegar það kemur saman á ný eftir jólahlé þann 21. janúar og ætlunin er að ljúka afgreiðslu þess fyrir 1. febrúar, samkvæmt samkomulagi sem gert var fyrir jól. Úr röðum sjálfstæðismanna heyrast efasemdir. 

„Ég er ekki á móti veggjöldum sem slíkum. Ég hygg að það sé skynsamlegt að fólk greiði fyrir notkun á umferðarmannvirkjum,“ segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. 

„Ég er hins vegar á móti því að við innleiðum hér nýja tegund af skattheimtu til að þyngja hér álögur á heimili og fyrirtæki þegar við höfum til dæmis bundið hér hundruð milljarða í eignum. Ríkið hefur bundið hér hundruð milljarða í eignum sem ríkið á kannski að fara að losa um og nýta í samfélagslega innviði, meðal annars vegasamgöngur.“ 

Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi.Vísir/Eyþór.
Óli Björn vísar til eignar ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka en einnig í Leifsstöð. 

„Samkvæmt bókfærðu verði, og líklegast gæti verðmætið verið meira, voru 330 milljarðar í bönkunum, þessum tveimur. Við getum velt fyrir okkur hvert verðmæti Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er. Og það eru fleiri svona eignir.“ 

Óli Björn vill að samhliða veggjöldum verði önnur gjaldtaka af umferðinni jafnframt endurskoðuð svo heildarálögur aukist ekki á landsmenn. En mun hann styðja veggjöld án þess að önnur gjöld á bíleigendur verði lækkuð? 

„Sko, þetta er ekki alveg svona einfalt. Ég hef sagt: Við skulum innleiða hér veggjöldin. Við skulum taka þá umræðu. En við getum ekki tekið þá umræðu, og tekið ákvörðun um álagningu veggjalda, án þess að huga að samhengi við aðra gjaldtöku á umferðina og líka hvernig við erum að nýta eignir ríkisins. Þetta er svo einfalt í mínum huga,“ segir Óli Björn. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

FÍB vill að ráðamenn skili bílasköttum til vegagerðar

Félag íslenskra bifreiðaeigenda óttast að innheimtukerfi vegtolla verði of dýr lausn fyrir örríki eins og Ísland og hvetur ráðamenn frekar til að láta þá skatta, sem þegar eru teknir af bíleigendum, renna til vegagerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×