Viðskipti innlent

864 sagt upp í hópuppsögnum í fyrra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flestir þeirra sem sagt var upp í hópuppsögn á síðasta ári höfðu starfað við flutninga.
Flestir þeirra sem sagt var upp í hópuppsögn á síðasta ári höfðu starfað við flutninga. Vísir/Vilhelm
Þrjár tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í desember síðastliðnum. Þar var 269 einstaklingum sagt upp störfum, 149 manns í flutningum og 120 í framleiðslu. Fram kemur í úttekt á vef Vinnumálastofnunar að af þessum 269 sem sagt var upp störfum hafi 231 verið á höfuðborgarsvæðinu og 38 á Suðurlandi. Um er að ræða næstum þriðjung allra þeirra hópuuppsagna sem stofnuninni bárust í fyrra.

Þessar tölur ríma vel við fréttaflutning af hópuppsögnum í desember. Til að mynda var greint frá því að 111 fastráðnum starfsmönnum WOW Air yrði sagt upp, sem fellur undir „flutninga“-flokkinn, og að 120 manns myndu missa vinnuna við lokun bakarískeðjunnar Kornsins sem fellur undir „framleiðslu.“

Vinnumálastofnun hefur hins vegar þann háttinn á að gefa ekki upp hvaða fyrirtæki eða stofnanir hafa ráðist í hópuppsagnir. Vísir hefur sent formlegt erindi um að athugað verði hvort það vinnulag standist upplýsingalög.

Í fyrrnefndri úttekt Vinnumálastofnunar segir jafnframt að alls hafi 15 hópuppsagnir ratað inn á borð stofnunarinnar allt síðastliðið ár. Í þeim var 864 manns sagt upp og höfðu 45 prósent þeirra starfað við flutninga, eða 393 einstaklingar. Í iðnaðarframleiðslu misstu 266 manns vinnunna og 151 í fiskvinnslu.

Um talsverða aukningu er að ræða, séu hópuppsagnirnar bornar saman við fyrri ár. Þannig var 652 sagt upp í hópuppsögnum árið 2017 og 493 árið 2016.

Einnig er þess getið að alls hafi 51 prósent hópuppsagna á árinu 2018 verið á höfuðborgarsvæðinu, um 34 prósent á Suðurnesjum, um 11 prósent á Suðurlandi, um 3 prósent á Vesturlandi og um 1 prósent á Vestfjörðum.

Vinnumálastofnun

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×