Erlent

Mælt með að einn úr Man­son-fjöl­skyldunni fái reynslu­lausn

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Beausoleil afplánar sinn dóm í fangelsi í Vacaville í Kaliforníu.
Robert Beausoleil afplánar sinn dóm í fangelsi í Vacaville í Kaliforníu. AP
Nefnd í Kaliforníu, sem metur hvort fangar í ríkinu skuli veitt reynslulausn, hefur nú í fyrsta skipti mælt með að Robert Beausoleil, sem var hluti Manson-fjölskyldunnar svokölluðu, verði veitt reynslulausn. Hann hefur setið í fangelsi í nærri hálfa öld.

Hinn 71 árs gamli Beausoleil hlaut á sínum tíma dóm fyrir að hafa drepið tónlistarmanninn Gary Hinman í lok júlí 1969. Þurfti Hinman að sæta pyndingum í þrjá daga þar sem Manson skar meðal annars andlit hans með sverði, áður en hann dó.

AP segir frá því að nefndin hafi átján sinnum áður neitað Beausoleil um reynslulausn. Hann var upphaflega dæmdur til dauða árið 1970, en dómnum var breytt í lífstíðarfangelsi þremur árum síðar.

Charles Manson árið 1969.Vísir/Getty
Árið 1969 fór Charles Manson fyrir hópi fólks sem fylgdi honum í einu og öllu það sumar fóru fylgjendur Manson á kreik og myrtu alls sjö manns á tveimur dögum.

Sjá einnig: Hvar eru hinir meðlimir „Manson-fjölskyldunnar“?

Í hópi fórnarlamba Manson og fylgjenda hans var leikkonan Sharon Tate, sem þá var barnshafandi og gengin átta mánuði á leið. Fjórir gestir hennar voru einnig myrtir á heimili hennar og leikstjórans Roman Polanski.

Gavin Newsom, verðandi ríkisstjóri í Kaliforníu, gæti enn komið í veg fyrir að Beausoleil verði veitt reynslulausn á næstu mánuðum. Fráfarandi ríkisstjóri, Jerry Brown, hefur ítrekað komið í veg fyrir að fylgjendur Manson fái reynslulausn, en Manson sjálfur dó í fangelsi árið 2017.

Beausoleil afplánar sinn dóm í fangelsi í Vacaville, um 75 kílómetrum norðaustur af San Francisco.


Tengdar fréttir

Morðinginn sem drap aldrei neinn

Hinn alræmdi og hataði Charles Manson er látinn. Orðspor hans er goðsagnakennt og honum hefur ítrekað verið líkt við djöfulinn sjálfan. Erfitt er að skilgreina glæpi Mansons þar sem ekki er hægt að kalla hann rað- eða fjöldamorðingja

Charles Manson látinn

Einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna lést í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×