Erlent

Verður ekki send nauðug úr landi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. Skjáskot/Twitter
Rahaf Mohammed al-Qunun, átján ára sádiarabísk stúlka, verður ekki flutt nauðug úr landi, að sögn yfirmanns innflytjendamála hjá tælensku lögreglunni. Mohammed al-Qunun læsti sig inni á hótelherbergi á flugvellinum í Bangkok um helgina af ótta við að vera send aftur til fjölskyldu sinnar, sem hún telur að muni myrða sig.

Sjá einnig: „Hann vill drepa hana“

Blásið var til blaðamannafundar um mál Mohammed al-Qunun í Bangkok um klukkan níu að íslenskum tíma í morgun. Surachate Hakparn, yfirmaður innflytjendamála hjá tælensku lögreglunni, tjáði blaðamönnum að yfirvöld hefðu ekki lengur í hyggju að senda Mohammed al-Qunun úr landi. Þá væri hún nú undir verndarvæng tælenskra stjórnvalda og því gæti enginn neytt hana til að fara úr landi.

„Ef það að senda hana úr landi yrði valdur að dauða hennar, við myndum að sjálfsögðu ekki vilja gera það.“

Þá sagðist hann myndu funda með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í dag vegna málsins. Fengist hefur staðfest að fulltrúar frá stofnuninni hafi rætt við Mohammed al-Qunun í dag en hún segist ekki ætla að yfirgefa hótelherbergið fyrr en hún fái hæli einhvers staðar.

Mál Mohammed al-Qunun hefur vakið heimsathygli. Hún segist hafa verið á ferðalagi með fjölskyldu sinni í Kúveit er hún flúði til Tælands fyrir tveimur dögum. Hún freistaði þess að fljúga áfram til Ástralíu frá Bangkok en segir að vegabréf sitt hafi verið gert upptækt á flugvellinum.

Mohammed al-Qurun segist jafnframt ekki geta farið aftur til fjölskyldu sinnar þar sem skyldmenni hennar vilji hana feiga.


Tengdar fréttir

„Hann vill drepa hana“

Rahaf Mohammed al-Qunun, átján ára sádiarabísk kona, hefur læst sig inni á hótelherbergi á alþjóðaflugvellinum í Bangkok í Tælandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×