Erlent

Rússar varaðir við því að andkristur kunni að búa í snjalltækjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kirill, erkibiskup rétttrúnaðarkirkjunnar, og Pútín forseti eru mestu mátar.
Kirill, erkibiskup rétttrúnaðarkirkjunnar, og Pútín forseti eru mestu mátar. Vísir/EPA
Erkibiskup rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar segir að notkun fólks á snjallsímum og nútímatækni geti leitt til komu andkrists sem muni stjórna öllu mannkyninu í gegnum alnetið. Gagnrýnendur kirkjunnar og ríkisstjórnar Vladímírs Pútín forseta saka biskupinn um að reyna að ljá ritskoðunarstefnu stjórnvalda lögmæti.

Breska ríkisútvarpið segir að rússneskir samfélagsmiðlanotendur hafi tekið orðum Kirill erkibiskups með háði og efasemdum. Sumir þeirra hafa einnig sakað biskupinn um að ganga erinda ríkisstjórnar Pútín en þeir eru nánir bandamenn.

Í ávarpi á ríkissjónvarpsstöð sagði Kirill að snjallsímanotendur þyrftu að fara varlega þegar þeir notuðu „alnet tækja“ vegna þess að það veitti tækfæri til að ná stjórn á mannkyninu.

„Andkristur er manneskjan sem verður yfir alnetinu og stýrir öllu mannkyninu,“ sagði Kirill.

Í hvert sinn sem fólk kveikti á símanum, hvort sem kveikt væri á staðsetningarbúnaði eða ekki, gæti einhver fylgst með því, komist að áhugamálum þess og hvað það óttast. Sú stund muni renna upp að einhver muni nota allar þær upplýsingar og færa þeim sama völd.

„Slíkt vald á einni hendi boðar komu andkrists,“ sagði Kirill sem vildi þó ekki meina að hann eða kirkjan væri andsnúin tækniþróun og vísindum.

Andkristur er hugtak sem komið er úr Biblíu kristinna manna. Í spádómum hennar er sagt frá manni sem andæfir Jesú kristi og tekur sæti hans.

Aðgangur Rússa að netinu er takmarkaður og Pútín forseti er sagður vilja búa til sérstakt rússneskt net. Margir prestar rétttrúnaðarkirkjunnar eru dyggir stuðningsmenn þjóðernisstefnu forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×