Fótbolti

Bayern kaupir manninn sem skoraði flottasta markið á HM 2018 í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Pavard kyssir HM-bikarinn.
Benjamin Pavard kyssir HM-bikarinn. Getty/Mehdi Taamallah
Bayern München er búið að ná samkomulagi við Stuttgart um að franski bakvörðurinn Benjamin Pavard komi til Bæjara í sumar.

Bayern mun borga 35 milljónir evra fyrir franska heimsmeistarann og Benjamin Pavard mun skrifa undir fimm ára samning við þýska félagið. Verðmiðinn er því um 4,8 milljarðar íslenskra króna.





Benjamin Pavard er ennþá bara 22 ára gamall en var í stóru hlutverki hjá franska landsliðinu í úrslitakeppni HM í Rússlandi í fyrrasumar.

Benjamin Pavard skoraði meðal annars að margra mati mark mótsins í sextán liða úrslitunum á móti Argentínu þegar hann tók boltann viðstöðulaust á lofti fyrir utan teig eins og sjá má hér fyrir neðan.





Bayern liðið er nú við æfingar í Doha en þýska deildin kemur úr vetrarfríi 18. janúar næstkomandi. Bayern er í 2. sæti, sex stigum á eftir Borussia Dortmund og mætir síðan Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Benjamin Pavard mun þó ekki hjálpa þeim í næstu leikjum því hann klárar tímabilið með Stuttgart þar sem hann hefur spilað frá árinu 2016.

Pavard hefur leikið átján A-landsleiki fyrir Frakka þar af sex þeirra í úrslitakeppni HM síðasta sumar. Hann varð heimsmeistari í tólfta landsleiknum sínum en þann fyrsta spilaði hann 10. nóvember rúmu hálfu ári áður.

Benjamin Pavard hefur aðeins skorað 1 mark í 48 leikjum með Stuttgart í þýsku deildinni og á enn eftir að skora á þessu tímabili. Eina markið hans í keppnisleik á árinu 2018 var einmitt markið á móti Argentínu, flottasta markið á HM í Rússlandi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×