Viðskipti innlent

Bannað að birta umdeildar grænmetisauglýsingar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Aðalhetju auglýsingarinnar leist ekkert á innflutta grænmetið.
Aðalhetju auglýsingarinnar leist ekkert á innflutta grænmetið. AUGLÝSING FÉLAGS GARÐYRKJUMANNA
Áframhaldandi birting á umdeildum auglýsingum Sölufélags garðyrkjumanna, þar sem rýrð var kastað á innflutt matvæli, hefur verið bönnuð. Þetta er niðurstaða Neytendastofu eftir að heildsalan Innnes, sem flytur inn matvæli, kvartaði til stofnunarinnar í maí síðastliðnum. Um svipað leyti lagði Innnes inn beiðni um lögbann við sýningu auglýsinganna til embættis Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Sölufélag garðyrkjumanna réðst í umrædda auglýsingaherferð í maí í fyrra. Auglýsingarnar, sem spilaðar voru í sjónvarpi, útvarpi og á netinu, eiga það sammerkt að viðskiptavinur gengur um verslun, tekur upp grænmeti eða ávöxt sem á stendur „Imported,“ [innflutt] leggur upp að eyranu og heyrir þá hljóð, til að mynda að sturtað sé niður úr klósetti, hljóð í þungavinnuvélum og vélagný eða finni ólykt.

Auglýsingunum lauk svo á orðunum: „Grænmeti sem ber merkið okkar er ræktað með hreinu íslensku vatni. Hvaða vatn fer í gegnum grænmetið þitt? Íslenskt grænmeti, þú veist hvaðan það kemur."

Sjá einnig: Kvarta undan herferð Félags garðyrkjumanna

Hér að neðan má sjá eina þessara auglýsinga, sem þó hefur verið átt við. Búið er að klippa framan af henni og þannig fjarlægja níðið um innfluttu matvælin.

Í kvörtun Innnes til Neytendastofu er vísað til ummæla markaðsstjóra Sölufélags garðyrkjumanna í fjölmiðlum þar sem hann sagði að félagið vissi að skilaboðin væru ögrandi. Það taldi Innnes til marks um að Sölufélag garðyrkjumanna hafi verið „fullkomlega meðvitað um hver tilgangurinn væri með þessum nýju auglýsingum og hvaða hughrif vöknuðu við sýningu á þeim.“

Því sé haldið fram að „innflutt grænmeti og ávextir séu ræktaðir úr skólpvatni, við mengandi aðstæður, af því sé vond lykt og að brotið sé á réttindum starfsfólks sem sinni ræktuninni. Með því sé verið að lýsa tilteknu eðli vörunnar og einkennum hennar með blekkjandi hætti gagnvart neytendum,“ sagði í kvörtun Innnes og bætt við að fyrirtækið hefði farið fram á lögbann á auglýsingarnar.

Ekki ætlunin að koma höggi á innflytjendur

Sölufélag garðyrkjumanna hafnaði því alfarið að auglýsingar þess brytu í bága við lög sem banna óréttmæta viðskiptahætti. Markmiðið með hinum umþrættu auglýsingum hafi fyrst og fremst verið að upplýsa íslenska neytendur á „skemmtilegan og myndrænan hátt um gæði og ferskleika íslenskra afurða, ekki að koma höggi á innflytjendur erlends grænmetis og ávaxta,“ sagði í rökstuðningi sölufélagsins.

Neytendastofa taldi að þrátt fyrir að ekki væri vísað með beinum hætti til Innnes, eða annarra samkeppnisaðila Sölufélags garðyrkjumanna, væri augljóst að skírskotað væri til innflutts grænmetis og ávaxta. Gefið væri í skyn að aðstæður við ræktun, hreinlætis og gæða þess væri ábótavant. Taldi Neytendastofa því að auglýsingarnar fælu í sér villandi samanburð, væru neikvæðar og lítilsvirðandi í garð keppinauta á markaði og með þeim væri kastað rýrð á vörur Innnes.

Af þeim sökum bannaði Neytendastofa Sölufélagi garðyrkjumanna að viðhafa þessa viðskiptahætti og beindi þeim fyrirmælum til fyrirtækisins að fjarlægja auglýsingarnar þaðan sem þeim hafði verið komið á framfæri.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Kvarta undan herferð Félags garðyrkjumanna

Innnes hefur kvartað til Neytendastofu vegna auglýsingaherferðar sem ber saman innflutt og innlent grænmeti. Framkvæmdastjóri félags garðyrkjumanna segir herferðina hafa átt að vera skemmtilega. "Ekki allir sem hafa húmor fyrir þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×