Innlent

Báðar konurnar alvarlega slasaðar eftir hátt fall

Kristín Ólafsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Frá vettvangi í Fnjóskadal.
Frá vettvangi í Fnjóskadal. Landsbjörg
Konurnar tvær sem slösuðust við göngu í Grundarhnjúki á Gerðafjalli við Eyjafjörð í dag eru alvarlega slasaðar, samkvæmt upplýsingum frá viðbragðsaðilum á vettvangi slyssins. Önnur kvennanna var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur en hún er sögð meira slösuð en hin, sem enn var verið að flytja niður af fjallinu á sjötta tímanum.

Sjá einnig: Annar göngumanna kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar

Konurnar eru íslenskar og vanar göngumanneskjur, að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri. Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir í samtali við Vísi að konurnar hafi verið á göngu í fjallinu ásamt þriðju konunni, sem slasaðist ekki. Útlit sé fyrir að konurnar sem slösuðust hafi misst fótanna og runnið 200-300 metra niður fjallið.

Fnjóskadalur er merktur með rauðu á kortinu.Skjáskot/Google Maps
Jónas Baldur Hallsson varðstjóri hjá Slökkviliðinu á Akureyri er einnig á vettvangi. Hann segir að konan, sem verið er að flytja niður af fjallinu með línum, verði líklega ekki komin niður fyrr en rétt fyrir klukkan 18. Þaðan verði hún flutt með sjúkrabíl til Akureyrar.

„Það lítur út fyrir að hún sé minna slösuð [en hin konan] en hún er samt töluvert slösuð,“ segir Jónas Baldur í samtali við Vísi.

Björgunaraðgerðir hafa gengið vel miðað við aðstæður, að sögn viðbragðsaðila. Þeir viðbragðsaðilar sem fréttastofa ræddi við á sjötta tímanum segja þó að veður sé orðið slæmt við Grundarhnjúk, farið sé að hvessa og snjóa töluvert.

Í fyrstu tilkynningum um slysið frá björgunarsveitum kom fram að slysið hefði orðið í Fnjóskadal. Grundarhnjúkur er hins vegar í Gerðafjalli við Eyjafjörð. Þetta hefur verið leiðrétt.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×