Innlent

Fimmtán áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu

Sylvía Hall skrifar
Frá Ægisíðu.
Frá Ægisíðu. Vísir/Friðrik
Í ár verða áramótabrennur á fimmtán stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þar af tíu í Reykjavík. Eldur verður borinn að köstunum klukkan 20:30 fyrir utan litla brennu við Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg sem tendruð verður 15.

Litlar brennur verða við Ægisíðu, í Skerjafirði, við Suðurhlíðar neðan við Fossvogskirkjugarð, í Laugardal fyrir neðan Laugarásveg 18, við Suðurfell og við Kléberg á Kjalarnesi. Þá verða stærri brennur á Geirsnefi, við Rauðavatn og á Gufunesi.

Í Kópavogi verða tvær brennur, í Kópavogsdal við Smárahvammsvöll og Þingabrenna við Gulaþing. Kveikt verður í báðum brennum klukkan 20:30 og mun flugeldasýning Hjálparsveita skáta hefjast klukkan 21:10 við Smárahvammsvöll. Áramótabrennan við Smárahvammsvöll er fyrir neðan Digraneskirkju á sama stað og undanfarin ár á gamlárskvöld. Bílastæði eru við Digraneskirkju, á Smáratorgi og við Smáralind. Einnig eru stæði við suðurenda Fífunnar og við Fífuhvamm.

Í Hafnarfirði verður áramótabrenna haldin á íþróttasvæði Hauka á Ásvöllum klukkan 20, nánar tiltekið í hrauni fyrir framan íþróttamiðstöðina. Íbúar á Völlunum og í nærliggjandi hverfum eru hvattir til að fara þessa leið fótgangandi.

Ein áramótabrenna verður í Garðabæ við Sjávargrund og verður kveikt í brennunni klukkan 21. Hjálparsveit skáta mun sjá um flugeldasýningu.

Í Mosfellsbæ verður áramótabrenna haldin neðan Holtahverfis við Leirvogin þar sem þrettándabrennan er árlega. Kveikt verður í brennunni klukkan 20:30.

Hér að neðan má sjá staðsetningu áramótabrenna í Reykjavík.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×