Viðskipti innlent

Valitor stefnir að frekari vexti í Evrópu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors.
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors. Fréttablaðið/Stefán
Markmið Valitors er að fjölga stórum viðskiptavinum kortafyrirtækisins í Evrópu um meira en þrjátíu prósent á næsta ári. Þetta segir Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri Valitors Omni-Channel Solutions, í samtali við danska viðskiptablaðið Dansk Handelsblad.

Starfsmönnum Valitors á skrifstofu félagsins í Kaupmannahöfn verður fjölgað nokkuð, að sögn Halldórs Bjarkars, en nú starfa þar um eitt hundrað manns.

Eins og fram hefur komið áformar Valitor að sameina þrjú dótturfélög sín í Danmörku og Bretlandi undir nafni Valitors um næstu áramót. Eitt félaganna er greiðslumiðlunarfyrirtækið AltaPay sem Valitor keypti í lok árs 2014. Hin tvö eru Chip & Pin og IPS í Bretlandi.

AltaPay velti um 38,6 milljónum danskra króna, jafnvirði 714 milljóna íslenskra króna, í fyrra, að því er segir í frétt Dansk Handelsblad, og jókst veltan um 34 prósent á milli ára.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að stjórnendur Valitors hafi í hyggju að leggja aukna áherslu á að veita evrópskum smásölum svonefndar „Omnichannel“ greiðslulausnir. Mun skrifstofa kortafyrirtækisins í Kaupmannahöfn leika stórt hlutverk í þeirri vinnu.

Velta samstæðu Valitors var um 20 milljarðar króna í fyrra og þar af var 70 prósent veltunnar erlendur.

Bandaríski fjárfestingarbankinn Citi verður sem kunnugt er ráðgjafi Arion banka við sölu á Valitor, dótturfélagi bankans, en áformað er að selja félagið, að hluta eða í heild, í opnu söluferli á næsta ári. – kij






Fleiri fréttir

Sjá meira


×