Körfubolti

Byrjar á því að upplifa gamlárskvöld í fyrsta sinn á Íslandi og spilar svo með Haukum fram á vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Janine Guijt.
Janine Guijt. Mynd/Fésbókarsíða Hauka
Hollenski landsliðsbakvörðurinn Janine Guijt mun spila með kvennaliði Hauka í Domino´s-deildinni í körfubolta á nýju ári.

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur náð samningi við hollenska bakvörðinn en Janine Guijt hefur leikið upp öll yngri landslið Hollands og var nýlega valin í A landsliðið ásamt því að vera í landsliði Hollands í 3 á 3 keppni FIBA.

Janine Guijt er 23 ára og 172 sentímetra skotbakvörður sem spilaði síðast með Landslake Lions í hollensku deildinni en þar áður með liði Olimpico 64 í spænsku b-deildinni.

Guijt var með 6,4 stig og 0,7 stoðsendingar að meðaltali á 19,4 mínútum í sjö leikjum með hollenska liðinu í vetur. Hún hitti reynar aðeins 1 af 9 þriggja stiga skotum sínum og bara 35% skota sinna utan af velli.

Í fyrravetur var hún með 10,1 stig í leik og þá hitti hún úr 45% skota sinna utan af velli í þrettán leikjum með Landslake Lions í hollensku deildinni.

Guijt er væntanleg til landsins á milli jóla og nýárs og verður orðin lögleg með Haukum strax eftir áramótin.

„Við bjóðum hana velkomna til liðsins og ekki skemmir að gamlárskvöld verður ein hennar fyrsta minning af Íslandi,“ segir í frétt á fésbókarsíðu Hauka í dag eins og sjá má hér fyrir neðan.



Hér fyrir neðan má sjá Janine Guijt spila með 3 á 3 landsliði Hauka og tryggja sínu landsliði sigur með ótrúlegu skoti.

Janine Guijt tryggði hollenska liðinu sæti í úrslitaleiknum þar sem þær urðu reyndar að sætta sig við silfur.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×