Fótbolti

Arnór: Ólýsanlegt að sjá boltann í netinu en skrýtið inni í klefanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Sigurðsson í leik með CSKA Moskvu.
Arnór Sigurðsson í leik með CSKA Moskvu. vísir/getty
Arnór Sigurðsson verður tvítugur þann 15. maí næstkomandi en engu að síður hefur hann afrekað það sem enginn annar Íslendingur hefur gert - að skora gegn Real Madrid á Santiago Bernabeu.

Það gerði hann í 3-0 sigri CSKA Moskvu á Evrópumeisturunum í Meistaradeild Evrópu fyrr í þessum mánuði. Arnór gaf einnig stoðsendingu í leiknum en hann segir að það hafi verið einstök tilfinning að skora á þessum fornfræga velli.

„Það var ólýsanleg tilfinning að sjá boltann í netinu og að vinna 3-0 á Bernabeu er ekki leiðinlegra,“ sagði Arnór en þrátt fyrir sigurinn dugði hann CSKU Moskvu ekki til að komast áfram, hvorki í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar né heldur 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar. CSKA hafnaði neðst í riðlinum með sjö stig og er úr leik í Evrópukeppnunum í ár.

Klippa: Arnór skorar gegn Real
„Það var gríðarlega svekkjandi. Við þurftum að fara á Bernabeu til að sækja þrjú stig og okkur tókst það. Það var skrýtin tilfinning inni í klefa eftir leik þar sem okkur tókst ekki einu sinni að komast í Evrópudeildina eftir 3-0 sigur á Real Madrid,“ sagði Arnór.

CSKA Moskva er stórlið og Arnór finnur vel fyrir því. Hann nýtur góðs af því að annar Íslendingur er í liðinu, miðvörðurinn Hörður Björgvin Magnússon, sem hefur hjálpað honum að aðlagast vel á skömmum tíma.

„Það er mikil pressa á okkur og þetta er stór klúbbur. Maður finnur það í rússnesku deildinni að það er ekkert kjaftæði í boði þar. Það er mikil pressa á okkur, en það er gaman,“ sagði Arnór.

Klippa: Arnór: Einstakt að skora á Santiago Bernabeu

Tengdar fréttir

Arnór: Lykilatriði að hafa trú á draumunum sínum

Arnór Sigurðsson hefur átt ótrúlegt ár 2018 sem náði hápunkti á Santiago Bernabeu fyrr í þessum mánuði, er hann skoraði og lagði upp í 3-0 sigri á Evrópumeisturum Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×