Erlent

Ákærð fyrir að neyða nemanda sinn í klippingu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem deilt var á Reddit.
Skjáskot úr myndbandinu sem deilt var á Reddit. Skjáskot/Reddit
Bandarískur kennari á yfir höfði sér fangelsisvist eftir að myndbandi, þar sem hún sést klippa hár óviljugs nemanda síns, var deilt á Internetinu.

Kennarinn heitir Margaret Gieszinger og er 52 ára. Myndbandinu var fyrst deilt á vefsíðunni Reddit á miðvikudag en í því má sjá Gieszinger skipa nemanda sínum að setjast í stól fremst í skólastofunni. Hún hefst að því búnu handa við að klippa hár hans og syngur á meðan afbakaða útgáfu af bandaríska þjóðsöngnum.

Undir lok myndbandsins má sjá Gieszinger ganga um skólastofuna og ota skærum að öðrum nemanda sem berst á móti henni. Að lokum flýja nemendurnir skólastofuna. Myndbandið má sjá hér að neðan.

KFSN-fréttaveitan hefur eftir nemendum sem urðu vitni að atvikinu að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Gieszinger hegðar sér einkennilega við kennslu. Þá hafi hún mætt í kennslustundina umræddan dag með skærin í hendinni og tilkynnt bekknum að það væri „klippingardagur“.

Gieszinger var rekin úr starfi sínu sem efnafræðikennari við University Preparatory-menntaskólann í Visalia í Kaliforníu. Þá hefur hún verið ákærð í sex liðum vegna atviksins, m.a. fyrir ofbeldi gegn barni og frelsissviptingu. Hún á jafnframt yfir höfði sér allt að þriggja og hálfs árs fangelsisvist en var sleppt úr haldi lögreglu gegn tryggingagjaldi á föstudag, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×