Enski boltinn

Mourinho: Það vita allir hversu góður Paul Pogba er

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba var léttur þrátt fyrir að þurfa að dúsa á varamannabekknum um helgina.
Paul Pogba var léttur þrátt fyrir að þurfa að dúsa á varamannabekknum um helgina. Vísir/Getty
Jose Mourinho notaði Paul Pogba ekki í eina sekúndu í leik Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en portúgalski stjórinn talaði engu að síður vel um frönsku stórstjörnuna sína eftir leikinn.

United vann 4-1 sigur á Fulham um helgina en þetta var annar leikurinn í röð þar sem Paul Pogba er á varamannabekknum. Sjónvarpmyndavélarnar voru duglegar að mynda Frakkann á meðan leiknum stóð.

Paul Pogba hefur aðeins spilað 15 mínútur í síðustu tveimur leikjum á móti Arsenal og Fulham en báðir leikirnir voru á Old Trafford.





„Hann verður að spila með sama hugarfari og liðið hans. Paul getur orðið frábær leikmaður. Hann hefur allt til alls til að verða frábær leikmaður,“ sagði Jose Mourinho.

Paul Pogba fær að spila í Meistaradeildinni í vikunni en þar hefur Manchester United liðið þegar tryggt sig áfram. United er tveimur stigum á eftir toppliði Juventus fyrir lokaumferð riðlakeppninnar. Bæði lið eru á útivelli, Juventus heimsækir Young Boys til Sviss en Manchetser United spilar á Spáni á móti Valencia.

„Hann verður í byrjunarliðinu á móti Valencia og mun þá eiga frábæran leik og sýna öllum hversu góður hann er. Það vita allir hversu góður Paul Pogba er,“ sagði Mourinho. Hann virðist þó að vera senda Pogba skilaboð.

„Þú verður að vera með lið sem er með góðan skilning á stöðum sínum, leikmenn sem eru tilbúnir til að pressa og hafa ástríðu fyrir að pressa boltann. Ég tel að þessir tveir leikmenn, Matic og Herrera, hafa báðir virkilega gott hugarfar,“ sagði Mourinho.

Það er líka ekki hægt að kvarta mikið yfir Manchester United liðinu á móti Fulham þar sem liðið vann mjög sannfærandi 4-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×