Handbolti

Gunnar: Adam bjargaði jólunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Kaplakrika skrifar
Gunnar fagnaði í leikslok í Krikanum
Gunnar fagnaði í leikslok í Krikanum vísir/bára
Adam Haukur Baumruk tryggði Haukum jafntefli gegn FH í Olísdeild karla í Kaplakrika í kvöld. Gunnar Magnússon var ánægður með sinn mann og sagði hann hafa bjargað jólunum, hvorki meira né minna.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson kom FH yfir þegar aðeins sjö sekúndur voru eftir af leiknum. Haukar fengu aukakast hinu megin á vellinum með tvær sekúndur á klukkunni. Þeir stilltu upp í skot fyrir Adam, hann stökk upp og boltinn small í netinu. Jafntefli 25-25.

„Adam, hann bara bjargaði jólunum. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í leikslok. „Maður sefur betur og jólin eru betri.“

„Þetta var týpískur Hafnarfjarðarslagur, leikur áhlaupa. Ég var óánægður með byrjunina, munurinn í byrjun var markvarslan, hún var mikil hjá þeim en lítil hjá okkur. Við náum að jafna það og komast inn í leikinn aftur og náum svo forskoti.“

„Svo fannst mér við vera mjög miklir klaufar. Köstum boltanum frá okkur, förum illa með margar góðar sóknir. Við eigum sem betur fer síðasta áhlaupið en ég er alveg svakalega ósáttur við síðasta markið sem við fáum á okkur.“

„Ég skil ekki af hverju við mættum ekki Bjarna á þessu mómenti, ég á erfitt með að sætta mig við það. Hann kemur upp á mitt markið á einhverja átta metra, ótrúlegt að við höfum fengið þetta mark á okkur, ég er mjög ósáttur við það.“

Báðir Hafnarfjarðarslagirnir á þessu tímabili, að minnsta kosti í deildarkeppninni – það kemur í ljós hvort þeir verði fleiri með vorinu, enda í jafntefli. Þurfa Hafnfirðingar að sætta sig við að liðin séu bara jafn góð?

„Þetta eru bara tvö frábær lið. Þetta er eins og handbolti gerist bestur og gaman að taka þátt í þessu,“ sagði Gunnar Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×