Fótbolti

AC Milan gefst upp í Zlatan eltingarleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic spilar ekki fótbolta næstu mánuði.
Zlatan Ibrahimovic spilar ekki fótbolta næstu mánuði. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic fer ekki í neina Evrópureisu eftir áramót og fær því nægan tíma til að undirbúa sig fyrir næsta tímabil með Los Angeles Galaxy.

AC Milan dreymdi um að fá Zlatan Ibrahimovic til sín í janúar en nú hefur félagið gefist upp í þeim eltingarleik.  

Leonardo, íþróttastjóri AC Milan, er að reyna að styrkja liðið sitt fyrir seinni hluta tímabilsins og ofarlega á blaði var að fá Zlatan Ibrahimovic aftur til félagsins. Leonardo segir að nú séu þær dyr lokaðar.

„Zlatan lofaði forráðamönnum Los Angeles Galaxy því að hann færi ekkert ef þeir kæmu til móts við kröfur hans. Það hafa þeir nú gert,“ sagði Leonardo í viðtali eftir leik AC Milan um helgina.

Þar hefði verið gott að vera með Zlatan Ibrahimovic í framlínunni en leikurinn endaði með markalausu jafntefli.

Zlatan Ibrahimovic skoraði 56 mörk í 85 leikjum með AC Milan frá 2010 til 2012 en þá var Svíinn þrítugur. Hann hélt upp á 37 ára afmælið sitt á dögunum.

Tímabilið hjá Los Angeles Galaxy kláraðist í október og byrjar ekki aftur fyrr en í mars. AC Milan var að reyna að fá Zlatan lánaðan í nokkra mánuði en nú er ljóst að ekkert verður af því.

Zlatan Ibrahimovic átti fínt fyrsta tímabil með Los Angeles Galaxy þótt liðinu hafi mistekist að komast í úrslitakeppnina. Zlatan skoraði 22 mörk og gaf 7 stoðsendingar.  í 27 leikjum á tímabilinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×