Fótbolti

Galatasaray í Evrópudeildina þrátt fyrir tap í stórskemmtilegum leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leiknum í Tyrklandi í kvöld.
Úr leiknum í Tyrklandi í kvöld. vísir/getty
D-riðlinum er lokið í Meistaradeild Evrópu en eftir frábæran leik í Tyrklandi vann Porto 3-2 sigur á Galatasaray. Í hinum leiknum vann Schalke 1-0 sigur á Lokomotiv Moskvu.

Fyrir leiki kvöldsins voru Porto og Schalke komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar en Galatasaray og Lokmotiv voru í baráttunni um sætið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Galatasaray fékk færin til að komast yfir gegn Porto á heimavelli en á sautjándu mínútu skoraði Felipe og kom Porto yfir. Á 42. mínútu tvöfaldaði Moussa Marega forystuna af vítapunktinum.

Fyrir leikhlé dæmdi Alexey Kulbakov, dómari leiksins, sína aðra vítaspyrnu en nú fyrir Galatasaray sem minnkaði muninn á lokasekúndum fyrri hálfleiks.

Gestirnir náðu aftur tveggja marka forystu er Sergio Oliveira kom þeim í 3-1 á 57. mínútu en átta mínútum síðar minnkaði Eren Dierdiyok metin fyrir Tyrkina.

Þeir fengu gullið tækifæri til að jafna metin tuttugu mínútum fyrir leikslok en önnur vítaspyrna Sofiane Feghouli í leiknum fór nú í slána og niður. Aldrei inn fyrir og lokatölur 3-2 sigur.

Eina mark leiksins í Þýskalandi kom í uppbótartíma en það gerði Alessandro Schoepf og tryggði Schalke 1-0 sigur. Porto endar á toppi riðilsins með sextán stig, Schalke með ellefu, Galatasaray með fjögur og Lokomotiv þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×