Innlent

Starf­semi já­eindaskannans loks komin á skrið

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landsítalans tók til máls á kynningunni.
Páll Matthíasson, forstjóri Landsítalans tók til máls á kynningunni. Mynd/Landspítalinn
Jáeindaskanni sem Íslensk erfðagreining færði þjóðinni að gjöf, er kominn í notkun á Landspítalann eftir mikinn undirbúning. Landspítalinn bauð starfsfólki og nokkrum gestum að skoða aðstöðuna og kynna sér starfsemina í dag.

Á Facebook-síðu spítalans segir að starfsemi skannans sé nú komin á slíkt skrið að nokkrir sjúklingar séu rannsakaðir daglega og þegar full virkni verður komin á standi vonir til að þessi fjöldi verði um 1.700 til tvö þúsund sjúklingar á ári.

Pétur H. Hannesson, yfirlæknir rötgendeildar Landspítalans, segir að skanninn sé fyrst og fremst notaður til greiningar á krabbameinum og að það sé mjög ánægjulegt að hann sé kominn í notkun. „Fyrsti sjúklingurinn var tekinn hér 22. ágúst og eftir smá bras við bilanir og slíkt og stillingar á tækjabúnaði er starfsemin komin á gott ról og við rannsökum nokkra sjúklinga á dag.“

Á síðu Landspítalans segir að verkefnið sé eitt flóknasta tækniverkefni, sem hafi verið ráðist í hér á landi. Framkvæmdin hafi staði í þrjú ár og gengið ágætlega þrátt fyrir ófyrirséðar tafir.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Páll Matthíasson forstjóri Landspítala og Pétur H. Hannesson yfirlæknir röntgendeildar Landspítala, tóku til máls á kynningunni fyrr í dag, en meðal viðstaddra voru meðal annars Alma D. Möller landlæknir, og forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, María Heimisdóttir.





FRÉTT // Jáeindaskanninn tekinn í notkun from Landspítali on Vimeo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×