Enski boltinn

Spili Tottenham á Wembley í 16-liða úrslitunum verður þeim bannað að skipta aftur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Nýi leikvangur Tottenham sem er í óða önn að verða klár.
Nýi leikvangur Tottenham sem er í óða önn að verða klár. vísir/getty
UEFA og Tottenham eru nú í viðræðum um hvar Tottenham ætlar að spila heimaleikinn sinn í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Eftir 1-1 jafntefli gegn Barcelona á Camp Nou og 1-1 jafntefli hjá Inter og PSV varð ljóst að Tottenham væri komið í 16-liða úrslitin þar sem spilað verður í febrúar.

Eins og flestir vita hafa Tottenham staðið í framkvæmdum á nýjum leikvangi og allir heimaleikir liðsins á þessari leiktíð, bæði í deildinni og Meistaradeildinni, hafa verið spilaðir á Wembley.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvenær nýi leikvangurinn væri tilbúinn og hefur Tottenham oftar en einu sinni frestað opnunarleik á leikvanginum. Í vikunni gáfu þeir svo út að völlurinn yrði ekki klár gegn Manchester United 13. janúar.

Dregið verður í 16-liða úrslitin á mánudaginn í Nyon og spili Tottenham á Wembley í 16-liða úrslitunum verður þeim ekki leyft að skipta yfir á sinn nýja leikvang verði hann klár fyrir 8-liða úrslitin, fari Tottenham þangað.

Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála en yfirleitt þarf að vera klárt hvar liðið ætli að spila á þessum tímapunkti. UEFA virðist þó vera liðlegt varðandi Tottenham sem vonast eftir að geta spilað á nýja leikvanginum í 16-liða úrslitunum í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×