Erlent

May heldur til Brussel eftir að hafa staðið af sér vantraust

Kjartan Kjartansson skrifar
May reynir nú að bæta samninginn við ESB í von um að það fleyti honum í gegnum þingið.
May reynir nú að bæta samninginn við ESB í von um að það fleyti honum í gegnum þingið. Vísir/EPA
Fyrirkomulag landamæra Bretlands og Írlands verður efst á baugi þegar Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundar með leiðtogum Evrópusambandsins í dag. May, sem stóð af sér vantrauststillögu í eigin flokki í gærkvöldi, er sögð vilja fyrirheit um að málamiðlun um landamærin verði aðeins tímabundin.

Staðan í breskum stjórnmálum hefur verið sérlega eldfim undanfarna daga. May frestaði atkvæðagreiðslu í þinginu um útgöngusamning hennar við Evrópusambandið sem fara átti fram á þriðjudag. Útlit var fyrir að þingið kolfelldi samninginn. Ætlaði hún að reyna að herja betri samning út úr evrópskum leiðtogum.

Í kjölfarið lýsti hluti þingflokks Íhaldsflokksins yfir vantrausti á May. Hún stóð það af sér í atkvæðagreiðslu þingmanna í gærkvöldi.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að forysta Evrópusambandið sé ekki tilbúin að semja upp á nýtt við Breta. Hún sé hins vegar opin fyrir því að veita May frekari tryggingar fyrir því að málamiðlun um írsku landamærin verði tímabundin.

Málið snýst um landamæri Írlands og Norður-Írlands. Bretar, þar á meðal Norður-Írar, ætla að ganga úr Evrópusambandinu, innri markaði þess og tollasamstarfi. Írar vilja forðast i lengstu lög að koma þurfi upp landamæra- og tollaeftirliti á milli Írlands, sem verður áfram í ESB, og Norður-Írlands. Jafnvel hefur verið óttast að slíkt gæti ýft aftur upp ófrið á Norður-Írlandi.

Lausnin í Brexit-samningi May við ESB felur í sér að Norður-Írland verði áfram hluti af tollasamstarfinu og innri markaðinum þar til varanleg lausn finnst um landamærin. May vill fá evrópsku leiðtogana til að veita sér lagalegar skuldbindingar um að sú ráðstöfun verði tímabundin í þeirri von að það vinni samningnum meiri stuðning á þingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×