Handbolti

Tveir leikir upp á líf og dauða á einum sólarhring og besta handboltakona heims borin af velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristina Neagu.
Cristina Neagu. Vísir/EPA
Rúmenska kvennalandsliðið í handbolta er komið í undanúrslit á EM í Frakklandi en síðasti leikur liðsins í milliriðlinum var heldur betur dýrtkeyptur.

Hin frábæra Cristina Neagu var komin með 9 mörk og 6 stoðsendingar í leiknum þegar hún meiddist illa á hné. Neagu stóð ekki upp aftur og var borin af velli á börum.

Cristina Neagu mun af þessum sökum eflaust ekki spila meiri handbolta á þessu móti eða þá næstu mánuðina.

Rúmenska liðið tókst ekki að landa sigri án hennar en slapp inn í undanúrslitin á kostnað Norðmanna af því að rúmenska liðið tapaði bara með tveimur mörkum á móti Ungverjum. Þriggja marka tap hefði þýtt að norsku stelpurnar hefðu spilað um verðlaun.

Nú verður rúmenska liðið að mæta í sinn stærsta leik á EM í átta ár án þess að hafa eina allra bestu handboltakonu heims inn á vellinum.

Margir hafa gagnrýnt uppsetningu Evrópumótsins því að fimmti og sjötti leikur Rúmena á þessu Evrópumóti fóru fram með aðeins sólarhrings millibili. Báða dagana spilaði rúmenska liðið klukkan 18.00 að staðartíma.





Enginn af leikmönnum undanúrslitaliðanna hefur spilað eins mikið og Cristina Neagu sem er eins og áður sagði í algjöru lykilhlutverki í rúmenska liðinu.  Hún hefur spilað 335 mínútur af 360 mögulegum á mótinu. Af þessum 25 sem hún missti af voru átta mínútur eftir að hún meiddist á móti Ungverjum.

Cristina Neagu er næstmarkahæst í mótinu með 44 mörk í 6 leikjum og hún er í níunda sæti í stoðsendingum með 23. Enginn leikmaður á mótinu hefur átt þátt í fleiri mörkum. Cristina Neagu hefur komið að 67 í sex leikjum eða meira en tíu mörkum að meðaltali í leik.

Rúmenar mæta Rússum í undanúrslitum annað kvöld en í hinum leiknum mætast Hollendingar og Frakkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×