Enski boltinn

Jón Daði og félagar glöddu veik börn í Reading

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði og félagar í jólaskapi.
Jón Daði og félagar í jólaskapi. mynd/readingfc.co.uk
Jón Daði Böðvarsson og nokkrir félagar hans í enska B-deildarliðinu Reading gerðu sér ferð á barnadeild Royal Berkshire spítalans með poka fulla af gjöfum og jólagleði að vopni.

Jón Daði fór ásamt þeim Garath McCleary, John O’Shea, Jordan Obita, Paul McShane og Liam Moore en hópurinn samanstóð af leikmönnum sem eiga börn og svo strákum eins og Jóni Daða sem á von á sínu fyrsta barni.

Þetta er árleg ferð leikmanna Reading á barnadeildina þar sem að þeir reyna aðeins að keyra jólagleði í krakkana og fjölskyldur þeirra en hátíðirnar geta verið erfiður tíma fyrir fjölskyldur sem þurfa að horfa upp á börnin sín glíma við erfið veikindi.

Sjálfur er Jón Daði farinn aftur af stað með Reading en Scott Marshall, bráðabirgðastjóri Reading, greindi frá því í vikunni að íslenski landsliðframherjinn er byrjaður af æfa eftir að bein brotnaði í baki hans fyrr í vetur.

Selfyssingurinn fór frábærlega af stað á tímabilinu og skoraði sjö mörk í fyrstu ellefu leikjunum en hann hefur misst af síðustu sex leikjum Reading-liðsins sem er í mikilli fallbaráttu í B-deildinni.

Hér má sjá skemmtilegar myndir frá ferð Reading-mannanna á barnaspítalann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×