Innlent

Algengt að kertaskreytingar á samfélagsmiðlum uppfylli ekki viðmið um eldvarnir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þessi skreyting gæti verið á gráu svæði.
Þessi skreyting gæti verið á gráu svæði. Getty/Birgit Korber
Algengt er að kertaskreytingar sem sýndar eru í verslunum og á samfélagsmiðlum standist ekki viðmið um eldvarnir, að því er fram kemur í tilkynningu frá VÍS. Flestir brunar á heimilum verða jafnframt í desember og hefur þegar verið tilkynnt um bruna út frá kertaskreytingum.

Tölfræði tjóna hjá VÍS sýnir að flestir brunar á heimilum verða í desember og þar fast á eftir fylgir janúar. Algengast er að kvikni í út frá kertum eða eldavélum.

„Mikilvægt er að fylgjast vel með kertum sem hafa verið tendruð og muna að slökkva á þeim. En þau krosstré geta brugðist og því má aldrei hafa umgjörð kerta með þeim hætti að hætta sé á að kvikni í út frá þeim ef gleymist að slökkva eða ef herbergi er yfirgefið í skamma stund,“ segir í tilkynningu.

Algengt sé að skreytingar í verslunum og á samfélagsmiðlum uppfylli ekki þessi viðmið.

„Oft eru ótryggar undirstöður, kerti sem standa of þétt saman en 10 sm verða að vera á milli þeirra og skraut, greni eða annað sem liggur alveg upp við kertin. Allt þetta býður hættunni heim sem er aldrei áhættunnar virði þó að skreytingin sé falleg.“ 

Þá hefur verið tilkynnt um óvenjumarga stóra bruna til VÍS í ár, bæði hjá fyrirtækjum og heimilum. Landsmenn eru jafnframt hvattir til að tryggja að eldvarnir á heimilinu séu í lagi yfir aðventuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×