Enski boltinn

Carroll þreyttur á meiðslagríninu: Sagt að passa sig í stiganum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Carroll hefur eytt meiri tíma á sjúkralistanum en flestir aðrir
Carroll hefur eytt meiri tíma á sjúkralistanum en flestir aðrir vísir/getty
Andy Carroll hefur þurft að glíma við þó nokkur meiðsli á ferli sínum. Hann segist vera kominn með upp í kok af öllum þeim sem gera grín að honum fyrir meiðslatíðnina.

„Ég veit ekki hvað ég gerði til þess að verðskulda allt skítkastið sem ég fæ,“ sagði Carroll í viðtali við Daily Mail.

Það hefur verið sagt við hann að hann þurfi að passa sig við að fara upp og niður stiga. Fólk grínast með að hann gæti meiðst við að borða súpu.

„Ég fór á skauta með fjölskyldunni. Það skautar til mín maður sem segir „gaman að hitta þig, ekki fara út á ísinn, ég vil ekki að þú dettir og meiðir þig.“ Sama hvert ég fer þá fæ ég sama skítinn yfir mig.“

Carroll kom til baka úr meiðslum á undirbúningstímabilinu í sumar en fór í myndatöku sem sýndi að skrúfurnar í ökkla hans væru lausar. Hann þurfti að gangast undir aðgerð. Aftur.

Hann er nýkominn til baka eftir þá aðgerð og tók þátt í þremur af síðustu fjórum leikjum West Ham í úrvalsdeildinni.

Samningur framherjans rennur út í lok tímabilsins.

„Ég vil vera hér áfram. Félagið er með möguleika á tveggja ára framlengingu en ég hef verið meiddur og get þess vegna ekki hringt og heimtað tvö ár í viðbót. Ég þarf að sanna mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×