Innlent

Hanna Sigríður verður forstjóri Vinnueftirlitsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hanna Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Hanna Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að skipa Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, núverandi skrifstofustjóra skrifstofu lífskjara og vinnumála í velferðarráðuneytinu, forstjóra Vinnueftirlits ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirlitinu, hefur verið við stjórnvöl stofnunarinnar frá því að Eyjólfur Sæmundsson forstjóri lést fyrr á þessu ári.

Hanna Sigríður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og BA-próf í sálfræði. Hún á baki langan starfsferil innan stjórnsýslunnar og lengst af sem stjórnandi, eða allt frá því hún var sett yfir skrifstofu jafnréttis- og vinnumála í félagsmálaráðuneytinu árið 2004. Þá starfaði hún um nokkurra mánaða skeið árið 2009 sem settur ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Hanna Sigríður hefur yfirgripsmikla þekkingu á verkefnum sem lúta að vinnumálum í víðu samhengi enda hefur hún um langt árabil sem skrifstofustjóri þessara málefna fjallað um verkefni sem varða réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda, vinnumarkaðsaðgerðir, starfsendurhæfingu, vinnueftirlit og fleira.

Frá 1. janúar mun Unnur Sverrisdóttir aðstoðarforstjóri Vinnumálastofnunar taka tímabundið við stjórn hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×