Endurkoma Cardiff dugði ekki til

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Watford fagna
Leikmenn Watford fagna vísir/getty
Leikur Watford og Cardiff í ensku úrvalsdeildinni var í flestra huga ekki líklegur til þess að verða nein sýning en svo átti heldur betur eftir að verða og kom hvert glæsimarkið á eftir öðru.

Gerard Deulofeu byrjaði leikinn á því að tipla framhjá tveimur varnarmönnum Cardiff fyrir utan teiginn og smyrja boltanum svo snyrtilega framhjá Neil Etheridge í marki Cardiff. Heimamenn komnir yfir eftir 16. mínútna leik.

Watford átti fleiri færi í hálfleiknum en náði þó ekki að skora og staðan 1-0 í leikhléi.

Neil Etheridge vann svo sannarlega fyrir kaupinu í marki Cardiff í dag og strax í upphafi seinni hálfleiks varði hann vel frá Roberto Pereyra.

Á 52. mínútu kom annað mark leiksins. Varnarmaðurinn Jose Holebas skaut viðstöðulaust og smellti boltanum í vinstra markhornið. Korteri seinna var Domingos Quina búinn að koma Watford í 3-0 og staðan svört fyrir Cardiff.

Tvö mörk á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins hleyptu hins vegar von í hjarta stuðningsmanna Cardiff. Junior Hoilett skoraði það fyrra með mjög góðu skoti fyrir utan teig og Bobby Reid bætti því seinna við eftir klafs í teignum.

Mark Reid var fyrsta „ljóta“ mark leiksins eftir ekkert nema yfir pari mörk.

Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og reyndu leikmenn Cardiff hvað þeir gátu en jöfnunarmarkið kom ekki og 3-2 tap raunin.

Cardiff dettur niður í 16. sæti deildarinnar á meðan Watford klifrar upp í það 9.

Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Cardiff en var tekinn af leikvelli rétt áður en Hoilett skoraði fyrra mark gestanna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira