Handbolti

Rússar í úrslit eftir öruggan sigur

Hart barist í leiknum í dag.
Hart barist í leiknum í dag. Vísir/EPA
Rússland er komið í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í handknattleik eftir öruggan sigur á Rúmeníu í undanúrslitum í dag. Lokatölur 28-22 þar sem Rússar stungu af í síðari hálfleik. Það kemur síðan í ljós síðar í kvöld hverjum þær mæta í úrslitum.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi og aðeins munaði einu marki í leikhléi þar sem Rússar leiddu 16-15. Þær byrjuðu síðan síðari hálfleik af krafti og náðu fljótt fjögurra marka forskoti. Anna Vyakhireva fór fyrir sínu liði eins og svo oft áður og skoraði að vild.

Rúmenar, sem léku án stórstjörnunnar Cristinu Neagu, náðu aldrei að jafna eftir þetta. Rússar juku forystuna smátt og smátt og unnu að lokum þægilegan sex marka sigur.

Vyakhireva skoraði 13 mörk úr 18 skotum í kvöld og var mögnuð. Anna Sen kom næst með 4 mörk og þá átti markvörðurinn Anna Sedoykina góðan leik í markinu.

Hjá Rúmenum voru Ana Maria Savu og Crina Elena Pintea markahæstar með 4 mörk en augljóst var að liðið saknaði Neagu mikið.

Það kemur síðan í ljós á eftir hvort það verða heimastúlkur í Frakklandi eða Hollendingar sem mæta Rússum í úrslitum á sunnudaginn.

Rússland hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari kvenna í handknattleik og einu sinni Ólympíusmeistari. Þær hafa hins vegar aldrei orðið Evrópumeistarar en fá tækifæri til að bæta þeim titli í safnið á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×