Innlent

Trylltur öku­maður, ná­granna­erjur og einn sem brjálaðist í vega­bréfa­skoðun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það hefur gengið á ýmsu hjá lögreglunni það sem af er löggutísti.
Það hefur gengið á ýmsu hjá lögreglunni það sem af er löggutísti. vísir/vilhelm
Lögreglan hefur haft í nógu að snúast síðustu sex klukkutímana eða svo ef marka má #löggutíst á Twitter en þar segja lögregluembættin á Norðurlandi eystra, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum frá verkefnum kvöldsins og næturinnar.

Á meðal þess sem hefur komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var atvik þar sem ekið var á gangandi vegfaranda í verslun. Svo segir frá í tísti lögreglunnar:

„Ökumaðurinn trylltur á vettvangi og sagður hafa ráðist á þann sem hann ók á og ásakað fyrir að hafa verið að þvælast fyrir. #löggutíst #Jólastress #passaðuþrýstinginn“

Þá var ítrekað kvartað undan sama bílnum í Vesturbæ Reykjavíkur.

„Jólasektinni smellt á gripinn og eigandinn verður að leggja betur næst,“ segir í tísti lögreglunnar.

Stúfur villtur í Bústaðahverfi?

Síðan var tilkynnt um nágrannaerjur í Breiðholti og að ekið hefði verið á hund við Hafravatn sem lá dauður eftir. Einnig barst lögreglu tilkynning um mann sem væri að ganga á milli húsa í Bústaðahverfinu og kíkja á glugga.

„Tilkynnt um mann að ganga á milli húsa í Bústaðahverfinu að kíkja á glugga. Líklega er Stúfur villtur og langar að komast heim til Grýlu. Lögreglan fann hann ekki þrátt fyrir mikla og langa leit. #löggutíst #jólasveinareinnogátta“

Á Suðurnesjum var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þjófurinn fannst skömmu síðar þar sem hann var í rútu á leið frá flugstöðinni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.

Lögreglan þurfti svo að eiga við ölvaðan mann í vegabréfaeftirlitinu:

„Ölvaður karlmaður brjálast í vegabréfaskoðun. Við afskipti lögreglumanna veitir hann mótspyrnu. Handtekinn og færður á varðstofu FLE. Almenn deild heldur upp eftir til aðstoðar. #löggutíst“

Á Norðurlandi eystra stöðvaði lögreglan ökumann sem var á 132 kílómetra hraða í Hörgárdal og það með vélsleðakerru aftan í.

Lögreglan fyrir norðan fékk svo tilkynningu um eld í bíl fyrir utan verslun á Akureyri. Lögregla og slökkvilið fóru á vettvang en ökumaðurinn hafði orðið var við reyk í bílnum og náð að kæla hann niður með snjó áður en viðbragðsaðilar komu. Ekki var mikill eldur heldur aðallega reykur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×