Enski boltinn

Wolves upp fyrir Everton með sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Wolves fagna marki
Leikmenn Wolves fagna marki vísir/getty
Wolves fór upp fyrir Everton í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á Bournemouth. Newcastle og Crystal Palace nældu sér í mikilvæg stig.

Nýliðar Wolves eru að gera gríðarlega gott mót í ensku úrvalsdeildinni og eru eftir þá leiki sem búnir eru í 17. umferðinni einu stigi á eftir Manchester United, sem þó á leik til góða.

Wolves fékk lið Bournemouth í heimsókn. Bournemouth byrjaði tímabilið vel en hefur gengið hræðilega að undan förnu og fékk skell gegn Liverpool í síðasta leik.

Raul Jimenez kom Wolves yfir snemma leiks og þurfti hann að hafa eins lítið fyrir því og hægt er. Diogo Jota átti hlaup inn á teiginn, framhjá tveimur varnarmönnum og skaut í átt að marki. Skotið fór af varnarmanni Wolves og í átt að Jimenez sem var aleinn og hamraði knettinum í netið af stuttu færi, markvörðurinn gat ekkert gert eftir að snertingin við varnarmanninn breytti stefnu boltans.

Bæði lið áttu sín færi en annað mark leiksins kom ekki fyrr en í lok uppbótartímans.

Varamaðurinn Ivan Cavaleiro skoraði fyrir Wolves og tryggði þeim 2-0 sigur.

Crystal Palace og Newcastle unnu bæði mikilvæga sigra í fallbaráttunni.

Palace hafði betur gegn Leicester þökk sé glæsimarki frá Luka Milivojevic í lok fyrri hálfleiks í leik sem annars var ekki mikið fyrir augað.

Jamie Vardy átti gott færi fyrir Leicester í seinni hálfleik en Vicente Guaita varði vel.

Salomon Rondon tryggði Newcastle sigurinn gegn Huddersfield með eina marki leiksins. Heimamenn í Huddersfield voru þó sterkari aðilinn í leiknum og voru miklu meira með boltann en það skilaði ekki stigi fyrir þá í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×