Innlent

Jólaverslunin lítur vel út

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Jólaverslun fer vel af stað að sögn kaupmanna í Kringlunni en aðsóknin hefur aukist lítillega frá því í desember í fyrra. Framkvæmdastjórinn segir þurfa fleiri stæði við verslunarmiðstöðina á þessum tíma. Þá hefur netverslun hefur aukist mikið milli ára samkvæmt upplýsingum frá Póstinum.

Alls komu tvöhundruð og fimmtíu þúsund manns í Kringluna á fyrst fjórtán dögum desembermánaðar og er það um eins og hálfs prósenta aukning frá því á síðasta ári. Margir lögðu leið sína þangað í dag til að stunda jólainnkaupin og var afar erfitt að finna stæði um tíma.

Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar segir að á dögum sem þessum þurfi fleiri stæði.

„Bílastæðin eru í raun þröskuldurinn að því hvað við getum tekið á móti mörgum inní húsið,“ segir hann.

Hann segir að fimmtándi desember sé yfirleitt einn af stærri dögum ársins, einkum ef hann ber upp á laugardag.

„Síðustu tíu dagarnir í desember eru alla jafna stærstu aðsóknardagar ársins og þetta er fyrsti dagurinn af þeim,“ segir Sigurjón.   

Jólaverslun gekk afar vel á síðast ári og þetta ár lítur vel út að sögn Sigurjóns.

Samkvæmt upplýsingum frá Póstinum hafa pakkasendingar frá útlöndum aukist um 15% það sem af er ári og um tíu prósent innanlands en stór hluti þeirra er vegna aukinnar netverslunar. Sigurjón segir að netverslunin hafi mögulega áhrif á verslun í Kringlunni en aðallega á þann hátt að hún myndi mögulega aukast enn meir ef ekki væri fyrir hana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×