Innlent

Harmar að vera bendluð við „kannabis-kapítalisma“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, segir mikilvægi þingsályktunartillögu um notkun og ræktun kannibis í lækningaskyni vera ótvíræða, þrátt fyrir fjölda neikvæðra umsagna. Hún segir margar umsagnanna ekki vera á faglegum forsendum og harmar að vera bendluð við „kannabis-kapítalisma.“

Halldóra er fyrsti flutningsmaður tillögunnar sem kveður á um að heilbrigðisráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga sem heimili notkun og framleiðslu lyfjahamps. 

„Það eru náttúrlega búnar að koma margar neikvæðar umsagnir og ein sem var sérstaklega furðuleg frá heilsugæslunni en þar er verið að tala um einhverja bylgju áróðurs fyrir lögleiðingu kannabis og þau borin upp af hagsmunaaðilum sem hyggist græða á sölu og eitthvað svona. Þetta er ekki beint á faglegum forsendum þessi umsögn þannig að mér finnst voða leiðinlegt að sjá þetta þar sem er verið að bendla mig við einhvern kannabis-kapítalisma,“ segir Halldóra.

Hún bætir við að einnig hafi borist ýmsar málefnalegri umsagnir sem eigi erindi við umræðuna. Hún bindur vonir við að þingsályktunartillagan verði tekin á dagskrá Alþingis fljótlega eftir áramót. Enn eigi eftir að koma gestir fyrir nefndina og vill Halldóra vill bjóða erlendum gestum með sérfræðiþekkingu að koma fyrir nefndina.

„Í raun og veru þá er ég að leggja þetta fram til þess að hjálpa veiku fólki sem að kýs að nota kannabis að hjálpa veiku fólki sem að kýs að nýta sér eða nota kannabis til þess að auka sín lífsgæði. Þannig að þetta var mjög mikilvægt mál og mér finnst bara ljótt að við einhvern veginn stimplum þetta fólk sem glæpamenn,“ segir Halldóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×