Innlent

Keyrði á kött og lífið ein rjúkandi rúst í kjölfarið

Jakob Bjarnar skrifar
Júlíus Örn. Varð fyrir því óhappi að aka á kött og hefur síðan verið úthrópaður, menn hafa hótað því að drepa hundinn hans, ganga í skrokk móður hans og Júlíus er orðinn atvinnulaus vegna málsins.
Júlíus Örn. Varð fyrir því óhappi að aka á kött og hefur síðan verið úthrópaður, menn hafa hótað því að drepa hundinn hans, ganga í skrokk móður hans og Júlíus er orðinn atvinnulaus vegna málsins. visir/vilhelm
Fyrir um fjórum mánuðum gerist hörmulegt atvik, slys sem átti eftir að reynast afdrifaríkt fyrir Júlíus Örn Sigurðarson. Köttur hljóp fyrir bíl hans og drapst. Um algert óhapp var að ræða, slys, en það breytir ekki því að Júlíus Örn er búinn að missa vinnuna, honum hafa borist líflátshótanir, því hefur verið hótað að gengið verði í skrokk móður hans, hann er úthrópaður á netinu og hann er búinn að afskrifa jólin. Allt þetta má rekja til óhappsins með köttinn. Hvað gerðist eiginlega?

Úthrópaður sem kattarmorðingi og ógeð

Júlíus Örn er ungur maður sem búsettur er ásamt konu sinni og Border Collie-tík á Ásbrú á Suðurnesjum. Þegar Vísir hitti Júlíus Örn var hann niðurbrotinn maður; hafði ekki sofið í tvo sólarhringa. Hann hafði, á leið sinni, komið við í lúgusjoppu N1 uppí Ártúnsbrekku og þar var æpt á hann og honum neitað um afgreiðslu: Kattarmorðingi, var æpt á hann! Ógeð!

„Mannorð mitt er ein rjúkandi rúst. Ég hef starfað við dagróðra en er búinn að missa vinnuna vegna þessa,“ segir Júlíus Örn í samtali við Vísi.

Þetta á sér forsögu. Fyrir nokkru fór hroðalegt myndband í dreifingu á netinu sem vakti upp gríðarlega reiði. Þar má sjá mann nokkurn taka í blóðugan kött og hrista hann til. Þetta er kunningi Júlíusar, Jóhann Þór Arnarson. Hann sendi frá sér afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni eftir að myndbandsbrotið fór sem eldur í sinu um netið og lýsti því yfir að þetta hafði verið verulega ósmekklegt grín af sinni hálfu.

Júlíus Örn. Þegar Vísismenn hittu Júlíus hafi hann ekki sofið í tvo sólarhringa. Hann er úthrópaður á netinu og kallaður öllum illum nöfnum.visir/vilhelm
Hann ræddi við DV og lýsti því hvernig hann hefði ítrekað beðist afsökunar á þessum gjörðum sínum, að kötturinn hafi verið dauður og það hafi verið slys. En, allt kom fyrir ekki. Jóhann Þór hefur nú lokað Facebook-reikningi sínum og fer huldu höfði.

Kötturinn hljóp fyrir bílinn

Júlíus Örn var ökumaður bílsins en þeir voru við þriðja mann, Alexander Eiríksson, að þvælast frá Hvaleyrarvatni um fjögurleytið að nóttu til. Hugmyndin var sú að spreyja Jóhann Þór bleikan og henda honum út í Hvaleyrarvatn, sem átti að vera einskonar gjörningur fyrir Snapchat-reikning Jóhanns. Þegar til kom var of kalt og ekkert varð af því. Þegar þeir voru svo að keyra fram hjá hesthúsum sem eru ofan Hafnarfjarðar hljóp köttur í veg fyrir bílinn.

Eitt dæmi af mörgum um hótanir sem Júlíus Örn má sitja undir.
Júlíus Örn lýsir því svo að hann hafi ekki séð köttinn fyrr en það var um hálfur metri í hann. Því varð ekki forðað að keyra á köttinn. Honum brá vitaskuld mjög við þetta, fór út til að huga að kettinum sem þá var hann dauður. Júlíus Örn setti hann í græna ábreiðu og í skottið. Hann hafði þá þegar samband við lögregluna. Hann vildi koma kattarhræinu í hendur hennar ef það mætti verða til þess að hægt væri að gera eigendum kattarins viðvart. Lögreglan greindi Júlíusi Erni síðar frá því að kötturinn hafi ekki verið örmerktur, hann var ekki með ól og allt benti til þess að um flækingskött væri að ræða. Um var að ræða fullvaxinn kött.

Var mjög mótfallinn myndbandstökum

Félagar Júlíusar voru fullir og vitlausir og Jóhann Þór tók til við að taka upp myndbandsbrotið sem svo setti allt á annan endann. Júlíus Örn segir að sér hafi mislíkað það mjög, beðið Jóhann Þór um að hætta þessu en hann hafi tekið upp myndskeiðið og sagst ætla að skoða það seinna.

„Hann ákvað að taka upp þetta ógeðslega myndband. Ég var búinn að segja honum að gera það ekki. En, hann sagðist ekki ætla að deila þessu. Og ég sagði honum að gera það ekki, vissi að allt yrði brjálað. Mér fannst þetta verulega illa gert,“ segir Júlíus Örn og vísar til þess að vilja hafa þetta í flimtingum.

Þeir hittu síðan lögregluna. „Ég var með mikið samviskubit og vildi tala við eigandann ef hann fyndist.“

Alveg sama hvað Júlíus Örn reynir að útskýra fyrir fólki að þetta hafi verið slys, hann hafi verið algerlega andvígur þessum ömulegu upptökum, þá virðist það engu breyta.visir/vilhelm
Júlíus Örn segist ekkert vita hvers vegna en kunningi hans hafi svo deilt þessu ógeðslega myndbandi inná lokaðan Facebook-hóp. Júlíus Örn segir að þar sé í umferð alveg verulega ógeðslegt myndbandsefni. En, þaðan fór svo myndbandið á flug, í almenna dreifingu og það spurðist hratt út hverjir áttu í hlut. Þá var skaðinn skeður.

Vilja „slátra helvítis ógeðinu“

Eftir að spurðist að Júlíus Örn hafi verið ökumaðurinn umræddur í þessu hroðalega myndbandsbroti sem vakið hefur svo mikla reiði hefur líflátshótunum rignt yfir hann. Og Júlíus sýnir blaðamanni dæmi um það, skilaboð sem hann hefur fengið. Þar er hann kallaður öllum illum nöfnum, svo sem „helvítis ógeð“ og „fkn sver ég það að ég mun finna þig litla draslið þitt og hreint út sagt slátra þér og mér er drull sama hvort eikkver lögfræðingur hringi í mig og what ever ef ég væri þú þá myndi ég bara fara að hætta að skrifa hér helvítis auminginn þinn“.

Alveg sama hversu mjög Júlíus Örn reynir að útskýra mál sitt, það virðist aðeins gera illt verra. Erfitt reynist að hemja stjórnlausa bræðina sem ríkir á netinu.
Alveg sama hvað Júlíus Örn reynir að gera til að útskýra málið, það virðist bara gera illt verra. Hann vitnar í lögregluna sem sagði honum að einn af hverjum tíu ökumönnum lenda í því einhvern tíma á lífsleiðinni að aka á dýr, en það virðist engu breyta.

Er að hugsa um að flýja land

Júlíus Örn segist vera mikill dýravinur og það að hafa ekið á köttinn hafi reynst sér afar erfitt í sjálfu sér. Hótanirnar sem fylgdu hafa gert líf hans óbærilegt, sérstaklega hótanir sem snúa að því að gengið verði í skrokk móður hans. En, hún er alvarlega veik.

„Ég get ekki tekið ábyrgð á því sem hann Jóhann gerir. Mér mislíkar það. En, ég er að fá hótanir og líflátshótanir, bæði á netinu og svo er hringt í mig. Menn eru að hóta því að drepa hundinn minn, ganga í skrokk á mömmu minni. Ég er búinn að ákveða það að láta mig hverfa yfir jólin. Er að íhuga að flýja bara land. Ég get ekki séð framá það að geta verið með fjölskyldunni yfir jól. Slík er heiftin og áreitið,“ segir Júlíus Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×