Innlent

Grunsamlegur jólasveinn vekur óhug í Salahverfinu

Jakob Bjarnar skrifar
Jólasveinninn bankaði uppá og var boðið inn til að heilsa uppá krakkana. Svo tóku að renna tvær grímur á húsfreyju.
Jólasveinninn bankaði uppá og var boðið inn til að heilsa uppá krakkana. Svo tóku að renna tvær grímur á húsfreyju.
Grunsamlegur jólasveinn, ef svo má segja, hefur verið á kreiki í Kópavogi, í Salahverfinu nánar tiltekið, og vakið upp nokkurn óhug. Lögreglan í Kópavogi telur vert að vera á varðbergi gagnvart grunsamlegum jólasveinum.

Í Facebookhópi sem heitir einfaldlega Salahverfi er vakin athygli á því að jólasveinn hafi verið á ferð um hverfið, og bankað uppá. Greint er frá því að hann hafi bankað uppá, sagst hafa verið á leið í Lindakirkju, en þar kannist enginn við neinn jólasvein. Jólasveinninn sé greinilega að ljúga. Og, með þeim fyrirvörum að jólasveinar séu grunsamlegir að upplagi, þá sér vert að vara við jólasveinaferðum í Salahverfinu.

Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni staðfestir það að þetta atvik sé í málaskrá lögreglunnar. Frá um helgina. Atvikið sem um ræðir er hið dularfyllsta.

„Ungur maður klæddur sem jólasveinn bankaði á glugga einbýlishúss í Salahverfinu. Honum var boðið inn til að hitta krakkana á heimilinu, gaf nammi og mandarínur og var mjög „pró“ eða, hann hagaði sér eins og jólasveinn. Sagðist svo þurfa að fara áfram í Lindakirkju,“ segir Gunnar. En, þá tóku að renna á húsfreyju tvær grímur. Og í Lindakirkju kannaðist enginn við neinn jólasvein. Lögreglan hefur ekki margar vísbendingar til að vinna út frá.

„Ekki er vitað hvað honum gengur til en vissara fyrir fólk að vera á varðbergi gagnvart jólasveinum. Já, það er vissara,“ segir aðalvarðstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×