Körfubolti

Endurkoma Steph Curry dugði skammt í Detroit

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Meistararnir töpuðu í Detroit
Meistararnir töpuðu í Detroit vísir/getty
Stephen Curry sneri aftur á körfuboltavöllinn í nótt en það dugði Golden State Warriors ekki til sigurs gegn Detroit Pistons í Detroit. Curry hefur misst af síðustu leikjum vegna meiðsla en hann skoraði 27 stig í nótt í níu stiga tapi meistaranna. Blake Griffin og Andre Drummond fóru mikinn í liði heimamanna; Griffin með 26 stig og Drummond með 16 stig og 19 fráköst.

Það var einnig boðið upp á óvænt úrslit í Madison Square Garden þar sem New York Knicks fékk Milwaukee Bucks í heimsókn. Staðan var jöfn að loknum venjulegum leiktíma og þurfti því að framlengja. Fór að lokum svo að heimamenn í Knicks unnu sjaldgæfan sigur, 136-134.

Gríska fríkið Giannis Antetokounmpo skoraði 33 stig auk þess að taka 19 fráköst og gefa 7 stoðsendingar en nýliðinn Kevin Knox stal senunni með því að skora 26 stig af bekknum hjá Knicks.

Toronto Raptors urðu ekki á nein mistök þegar liðið heimsótti lánlaust lið Cleveland Cavaliers. Lokatölur 95-106 fyrir Raptors þar sem Kawhi Leonard skoraði 34 stig.

Þá gerði Boston Celtics góða ferð til Minnesota þar sem liðið vann níu stiga sigur á Timberwolves, 109-118. Gordon Hayward minnti rækilega á sig en hann skoraði 30 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar á þeim 29 mínútum sem hann spilaði.

Úrslit næturinnar

New York Knicks 136-134 Milwaukee Bucks

Detroit Pistons 111-102 Golden State Warriors

Washington Wizards 102-88 Brooklyn Nets

Cleveland Cavaliers 95-106 Toronto Raptors

Houston Rockets 121-105 Chicago Bulls

Minnesota Timberwolves 109-118 Boston Celtics

Sacramento Kings 111-110 Indiana Pacers

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×