Enski boltinn

Silva: Sýni Pickford stuðning því enginn gat búist við þessu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pickford stendur með sínum manni
Pickford stendur með sínum manni vísir/getty
Everton tapaði enn einum Bítlaborgarslagnum á Anfield þegar Divock Origi skoraði sigurmark Liverpool í uppbótartíma.

„Þetta var erfiður leikur og erfið úrslit fyrir okkur. Við áttum ekki skilið að tapa,“ sagði Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, við BBC eftir leikinn.

„Við reyndum að vinna leikinn en jafntefli hefði líklega verið sanngjörn niðurstaða. Þeir áttu ekki skilið að vinna en svona er fótboltinn.“

„Mínir leikmenn vita að þeir áttu meira skilið. Við byrjuðum leikinn saman og endum hann saman. Ég mun gefa Jordan Pickford allan þann stuðning sem hann þarfnast, hann er mjög góður markmaður og átti ekki von á þessu. Það er ekki hægt að búast við svona mörkum,“ sagði Silva en sigurmarkið kom þegar uppgefinn uppbótartími var runninn sitt skeið upp úr að því virtist engu.

Háloftabolti kom óvænt niður rétt við þverslána á marki Everton, Pickford var í vandræðum með boltann og sló hann niður í teiginn þar sem Origi var fyrstur að átta sig og skoraði.

„Við áttum opnari færi en þeir. Þeir áttu nokkur færi en okkar færi voru hættulegri. Þegar lið ná frammistöðum eins og við sýndum í dag þá vinna þau leiki.“

„Við erum að bæta okkur og við gerðum það í dag þó úrslitin hafi ekki verið okkur í hag. Fögnuður þeirra sýnir hversu erfiður leikurinn var fyrir þá,“ sagði Marco Silva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×