Enski boltinn

Sarri: Kante þarf enn að bæta tæknina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
N'Golo Kante
N'Golo Kante vísir/getty
N'Golo Kante er leikmaður sem flestir stjórar og stuðningsmenn í ensku deildinni horfa löngunaraugum á, en hann hefur enn ekki unnið sér inn fulla aðdáun síns eigin knattspyrnustjóra.

Kante bjó til markið sem kom Chelsea yfir gegn Fulham snemma leiks í gær, mark sem reyndist þeim bláklæddu mikilvægt þar sem þeir áttu oft á tíðum erfitt með að komast í almennilegan takt í leiknum.

Maurizio Sarri er þó enn ekki tilbúinn að láta Kante eftir frjálsa tauma og segir hann ekki vera búinn að aðlaga sig almennilega að taktík Ítalans.

„Mér fannst hann spila mjög vel. Hann varðist mjög vel. En hann þarf að mínu mati að bæta sig meira tæknilega séð,“ sagði Sarri. Þá ítrekaði hann að franski miðjumaðurinn þurfi að læra betur inn á hvenær hann eigi að halda sig nálægt Jorginho til að forðast „mikil vandræði.“

Kante var lykilmaður í Englandsmeistaraliði Leicester undir Claudio Ranieri. Ranieri er nýtekinn við liði Fulham og mætti sínum gamla lærisveini.

„N'Golo er frábær leikmaður. Maurizio hefur rétt fyrir sér í því að taka hann stundum fyrir. Allir leikmenn þurfa það til þess að bæta sig,“ sagði Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×