Enski boltinn

Galdraskiptingar Unai Emery

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Varamennirnir Alexandre Lacazette og Aaron Ramsey fagna í gær.
Varamennirnir Alexandre Lacazette og Aaron Ramsey fagna í gær. Vísir/Getty
Arsenal er komið upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 4-2 sigur á nágrönnum sínum í Tottenham í gær.

Unai Emery er á sínu fyrsta tímabili í stjórastólnum hjá Arsenal og það er óhætt að segja að þesssi 47 ára Spánverji kunni að nota varamennina sína.

Enn á ný voru það varamennirnir sem gerðu útslagið í sigrinum á Spurs. Það hafa verið margar galdraskiptingar hjá Unai Emery á leiktíðinni og ólíkt Arsene Wenger þá er hann óhræddur að henda varamönnum inn á völlinn strax í hálfleik.

Unai Emery sendi þá Alexandre Lacazette og Aaron Ramsey inná í hálfleik fyrir þá Alex Iwobi og Henrikh Mkhitaryan en staðan var þá 2-1 fyrir Tottenham.

Aaron Ramsey lagði fyrst upp jöfnunarmark fyrir Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette kom Arsenal síðan yfir eftir aðra stoðsendingu frá Aaron Ramsey.

Varamenn Arsenal hafa nú bæði skorað fleiri mörk (8) og gefið fleiri stoðsendingar (7) en varamenn allra annarra liða í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili eins og sjá má hér fyrir neðan.





Pierre-Emerick Aubameyang var í byrjunarliðinu í gær og skoraði tvö marka Arsenal en hann er engu að síður sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk sem varamaður á tímabilinu eða fjögur.

Aaron Ramsey er stoðsendingahæstur varamanna með fjórar slíkar en Chelsea-maðurinn Eden Hazard kemur næstur með þrjár.

Það má sjá öll mörk Arsenal liðsins í leiknum hér fyrir neðan og þar með þessa frábæru innkomu varamannanna Alexandre Lacazette og Aaron Ramsey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×