Handbolti

Hafa horft upp á Eyjamenn lyfta þremur bikurum á árinu og mæta þeim í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjamenn fagna deildarmeistaratitlinum eftir sigur á Fram.
Eyjamenn fagna deildarmeistaratitlinum eftir sigur á Fram. Vísir/Valli
Íslands-, bikar- og deildarmeistarar ÍBV taka á móti Fram í elleftu umferð Olís deild karla í kvöld.

Eyjamenn hafa tapað fjórum leikjum í röð og aðeins fagnað einum sigri í síðustu átta leikjum sínum. Sá sigur kom á móti Akureyri 21. október.

Framarar kynntust heldur betur velgengi ÍBV á eigin skinni á árinu 2018 því ÍBV-liðið vann þrjá af fjórum bikurum sínum eftir sigur á Fram.

ÍBV vann bikarkeppnina eftir 35-27 sigur á Fram í bikaúrslitaleik í Laugardalshöllinni 10. mars.

ÍBV vann deildarmeistaratitilinn eftir 34-33 sigur á Fram í lokaumferð Olís deildarinn 21. mars.

ÍBV vann meistarakeppni HSÍ eftir 30-26 sigur á Fram í Vestmannaeyjum 5. september.

Eyjamenn munu örugglega ekki fagna minna í kvöld takist þeim að landa langþráðum sigri og enda fjögurra leikja taphrinu.

Framarar upplifðu það sjálfir að enda langa taphrinu á dögunum því Safamýrarliðið var búið að fjórum leikjum í röð þegar liðið vann 30-26 sigur á Aftureldingu í síðasta leik.

Það er heilmikið undir í kvöld í baráttunni í neðri hluta deildarinnar. Fram er einu stigi og einu sæti á undan ÍBV fyrir leikinn og vinni Eyjamenn hafa liðin sætaskipti.

Leikur ÍBV og Fram hefst klukkan 18.30 en fjallað verður um hann í Seinni bylgjunni í kvöld sem hefst strax eftir leik Vals og Hauka sem er sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×