Körfubolti

„Hef ekki verið svona hamingjusamur í langan tíma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose.
Derrick Rose. Vísir/Getty
Það hefur verið auðvelt fyrir flesta að gleðjast með Derrick Rose í NBA-deildinni í vetur. Rose hefur átt eftirtektarverða endurkomu í deildina eftir mjög erfiða tíma síðustu ár.

Derrick Rose var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar tímabilið 2010-11 en sleit krossband í fyrsta leik í úrslitakeppninni 2012 og hefur síðan glímt við hver meiðslin á fætur öðrum.

Derrick Rose spilar nú með liði Minnesota Timberwolves þar sem hann er að koma með mikinn kraft inn af bekknum. Rose náði einum 50 stiga leik a móti Utah Jazz í lok október og hefur tíu sinnum skorað meira en 20 stig í leik í vetur.

„Ég hef ekki verið svona hamingjusamur í langan tíma,“ sagði Derrick Rose í viðtali við Star Tribune.





„Nú er ég hættur að hafa áhyggjur af því sem fjölmiðlarnir eru að segja um mig eins og ég gerði áður í Chicago. Ég þarf heldur ekki að eiga við skrifstofumennina eins og í Chicago eða glíma við önnur viðlíka vandamál,“ sagði Rose.

Star Tribune ræddi við hann eftir leik á móti Boston Celtics sem Minnesota Timberwolves tapaði reyndar með níu stigum en Derrick Rose skoraði 26 stig á 29 mínútum.

Derrick Rose hefur sett stefnuna á það að vera kosinn besti sjötti leikmaðurinn í deildinni (besti varamaðurinn) en hann er með 19,3 stig og 4,4 stoðsendingar að meðaltali á 29.5 mínútum í leik. Rose hefur komið inn af bekknum í 16 af 21 leik.

„Það væri gaman að vinna verðlaunin sem besti sjötta maðurinn. Ég tel að það sé ekkert slæmt að viðurkenna það eða lélegt markmið fyrir mig þegar ég er að koma inn af bekknum. Ég vil vera besti varamaðurinn. Þannig líður mér og þannig tel ég mig geta hjálpað liðinu,“ sagði Derrick Rose.

„Það er svolítið skrýtið að koma inn af bekknum en að sama skapi er það ástæðan fyrir því að ég er hér. Ég er hér til að skila mínu starfi og hjálpa ungu strákunum,“ sagði Derrick Rose.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×