Körfubolti

Chicago Bulls rak þjálfarann sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fred Hoiberg.
Fred Hoiberg. Vísir/Getty
Fred Hoiberg verður ekki lengur þjálfari Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta.

Chicago Bulls ákvað að reka Hoiberg og mun Jim Boylen taka við liðinu. Boylen hefur verið aðstoðarþjálfari Fred Hoiberg allan hans tíma hjá Bulls.

Jim Boylen hefur ekki áður verið aðalþjálfari í NBA-deildinni en hann vann NBA-titilinn þrisvar sem aðstoðarþjálfari, fyrst tvisvar sem aðstoðarþjálfari Rudy Tomjanovich hjá Houston Rockets (1994 og 1995) og svo sem aðstoðarmaður Gregg "Pop" Popovich hjá San Antonio Spurs (2014).

Hoiberg er annar þjálfarinn sem er rekinn á tímabilinu en Cleveland Cavaliers rak Tyronn Lue á dögunum.





Chicago Bulls hefur aðeins unnð 5 af 24 fyrstu leikjum tímabilsins en það hjálpaði ekki að liðið hefur verið án Finnans snjalla Lauri Markkanen.

Fred Hoiberg varð þjálfari Chicago Bulls 2. júní 2015 en hann var þar áður þjálfari Iowa State í fimm ár.

Undir stjórn Fred Hoiberg vann Chicago Bulls 115 leiki en tapaði 155. Hann var því með 42,6 prósent sigurhlutfall.

Bulls fór í úrslitakeppnina undir hans stjórn árið 2017 en hafa ekki verið nálægt úrslitakeppninni síðan.

Chicago Bulls hættir samt ekki að borga Fred Hoiberg laun. Hann gerði fimm ára samning við félagið árið 2015 sem færði honum samtals 25 milljónir dollara eða þrjá milljarða íslenskra króna.

Fred Hoiberg fær því allan þann pening svo framarlega sem hann tekur ekki við öðru starfi á þessum tíma.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×