Körfubolti

Körfuboltastjarna kastaði dúkkum í vöggu í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Llull.
Sergio Llull. Vísir/Getty
Vinsæll kvöldspjallaþáttur á Spáni fékk einn besta körfuboltamann spænsku þjóðarinnar í heimsókn en það sem sjónvarpsfólkið lét hann gera hefur farið fyrir brjóstið á sumum.

Sergio Llull mætti í La Resistencia þáttinn í gærkvöldi og ræddi um heima og geima. Hann tók líka þátt í gestaþrautinni sem var að þessu sinni fólgin í því að kasta smábörnum (dúkkum) yfir allan salinn og reyna að hitta í vöggu.

Sergio Llull er frábær körfuboltamaður sem hefur spilað með Real Madrid í meira en áratug og unnið fjölda verðlauna með spænska landsliðinu.

Llull er öflug þriggja stiga skytta en klikkaði reyndar á fyrsta „skotinu“ sínu. Næsta skot rataði aftur á móti rétta lið eins og má sjá hér fyrir neðan.





Bæði Sergio Llull og þáttarstjórnandinn höfðu mjög gaman af sem og allur salurinn. Þetta voru vissulega bara dúkkur og ætti því ekki að særa neinn.

Sergio Llull er orðinn 31 árs gamall. Hann hefur unnið EuroLeague tvisvar sinnum með Real Madrid og var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna 2017. Síðasta vor varð Llull spænskur mistari í fimmta sinn með Real Madrid.

Sergio Llull varð Evrópumeistari með spænska landsliðinu 2009, 2011 og 2015 en hann vann einnig silfurverðlaun á ÓL 2012 og bronsverðlaun á ÓL 2016.

Llull hefur alls skorað 833 stig og 117 þriggja stiga körfur í 131 leik með spænska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×