Enski boltinn

Mourinho stefnir ekki lengur á fjórða sætið fyrir áramót

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mourinho á fundinum í dag
Mourinho á fundinum í dag vísir/getty
Manchester United tekur á móti Arsenal í stórleik næstu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar annað kvöld. Jose Mourinho segir markmiðið ekki lengur vera að ná einu af fjórum efstu sætunum fyrir áramót.

United er í sjöunda sæti deildarinnar, átta stigum á eftir Arsenal í fjórða sætinu.

„Fyrir leikinn gegn Palace [United gerði 0-0 jafntefli við Crystal Palace 24. nóvember] sagði ég að markmiðið væri að enda desember í topp fjórum. Nú hefur markmiðið breyst. Nú þurfum við að reyna að vera sem næst þessum sætum,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í dag.

„Við þurfum að verða aðeins heppnari og fækka vandamálunum. Við þurfum að sumir leikmenn standi sig.“

„Ég held ekki að Everton endi ofar en United. Ég held að í lok tímabilsins verði sex efstu liðin þau sem flestir búast við að endi þar.“

Í vikunni bárust fréttir af því að Mourinho hafi kallað Paul Pogba veiru í búningsklefanum. Mourinho vildi ekkert tjá sig um það sem aðrir hafa eftir honum.

Arsenal situr í fjórða sætinu eftir sigur á Tottenham um helgina. Arsenal gerði jafntefli við Liverpool en tapaði í byrjun tímabils fyrir Manchester City og Chelsea. United verður síðasta af hefðbundnu „topp sex“ liðunum sem Arsenal mætir í fyrri umferð úrvalsdeildarinnar.

„Arsenal er gott lið sem hefur gengið vel undan farið. Þegar þú spilar í Evrópudeildinni þá getur þú hvílt leikmenn, en mörg lið líða fyrir það. Það er ekki mikil hvatning í því.“

„Þetta verður erfiður leikur fyrir okkur en líka fyrir þá, þrátt fyrir vandamál okkar með liðsvalið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×