Handbolti

Þórey Rósa: Hálf ótrúlegt að okkur tókst það

Anton Ingi Leifsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sér sæti í umspili um laust sæti á HM 2019 eftir rosalegan sigur á Azerbaídsjan, 49-18, um síðustu helgi.

Leikurinn var síðasti leikur Íslands í undankeppninni og Þórey Rósa Stefánsdóttir, einn reynslumesti leikmaður liðsins, segir að þetta hafi verið kærkomið.

„Líka það að vita fyrir leikinn að þú þurfir að vinna leikinn með 27 mörkum að minnsta kosti. Það var hálf ótrúlegt að okkur tókst það en við lögðum upp með plan; tíu mínútur í einu og sjá hvort að það myndi fleyta okkur,“ sagði Þórey Rósa í samtali við Guðjón Guðmundsson.

Ísland spilaði á þremur stórmótum í röð, frá 2010 til 2012, en síðustu ár hafa verið liðinu erfið og illa hefur gengið að ná góðum úrslitum.

„Við erum búin að ganga í gegnum kynslóðaskipti og óléttur og allan blessaðan pakkann. Við verðum að ná að komast á þennan stað. Það er hundleiðinlegt að vera í botnbaráttu í einhverjum undanriðlinum.“

„Við viljum vera að berjast um að komast inn á stórmót og þetta var fyrsta skrefið í áttina að því. Liðið er ungt en samt sem áður ekkert brjálæðislega ungt miðað við önnur landslið.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í Sportpakkanum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×